141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:04]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Varðandi spurningu mína um 66. gr. þá fjallar hún í rauninni um það hvort það eigi að vera ófrávíkjanlegt skilyrði að viðkomandi uppfylli ekki skilyrði fyrir lífeyrisgreiðslum til að geta fengið umönnunarbætur. Þetta skiptir verulegu máli, t.d. þegar fólk er oft og tíðum að reyna að vinna dálítið fram yfir lífeyrisaldurinn en velur mögulega að sinna umönnun aðstandenda eða maka. Þá geta tekjumöguleikar þess skerst og væri kannski sanngjarnt að leyfa umönnunarbætur í því tilviki.

Annað sem mig langaði að spyrja um er um bráðabirgðaákvæði V. Liggur fyrir kostnaðarmat á því hvað það mundi kosta að fella það út og láta skerðingarákvæðið um bætur til örorkulífeyrisþega í 22. gr., þ.e. um 25% lækkunarhlutfall, taka gildi strax? Hversu mikill kostnaður hlytist af því?