141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:33]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Það er rétt hjá hv. þingmanni að farið var inn á það í nefndinni og talað mikið um það sem hv. þingmaður kallar „að enginn tapaði“. Hann spyr hvort ég sé sáttur við það. Ég er í grundvallaratriðum sáttur við það vegna þess að ég fór í þessa vinnu með það að markmiði annars vegar að einfalda lífeyriskerfið og hins vegar til að bæta velferðarkerfið, hjálpa okkur að styrkja grunn þeirra sem fá lífeyrisgreiðslur. Þess vegna er ég ekkert ósáttur við að þetta sé grundvallarviðmiðið.

Varðandi hins vegar það sem hv. þingmaður spyr um, fjölgun lífeyrisþega, þá er hárrétt hjá honum að fólki sem hefur rétt á töku lífeyris mun fjölga á næstu árum. Ég held að hækkunin sem mun hljótast af því í lífeyriskerfinu verði ekki eins mikil og menn óttast akkúrat núna. Hún verður sannarlega einhver og jafnvel nokkur en á móti kemur að stór hluti þeirra sem fer á lífeyri mun í vaxandi mæli geta aflað sér atvinnutekna eitthvað fram yfir það sem við köllum lífeyristökualdur núna. Þess vegna held ég að þetta vandamál muni ekki verða eins mikið og hv. þingmaður kom inn á. Svo er það aftur allt önnur umræða með hvaða hætti við eigum að horfa til þess til miklu lengri tíma. Eigum við til dæmis að fara í einhverjum mæli að endurskilgreina það hvenær einhver sé kominn á lífeyrisaldur?