141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Í þjóðfélaginu eru lágtekjustörf því miður oft kvennastörf og umönnunarstörf. Það fólk er með tekjur sem eru jafnvel jafnháar og lágmarkið sem hv. þingmaður er að keppa að að lífeyrisþegar fái. Telur hann eðlilegt að skattleggja fólk í umönnunarstörfum, konur, með um 220 þús. kr. á mánuði og láta þá peninga renna til lífeyrisþega, jafnvel þeirra sem það annast þannig að þeir verði betur settir? Lífeyrisþegar þurfa ekki að borga 1,5% félagsgjald, þeir þurfa ekki að borga 4% iðgjald í lífeyrissjóð og þeir þurfa ekki að standa í kostnaði vegna vinnu, ég nefni strætókort og ýmsan annan kostnað vegna vinnunnar. Telur hann eðlilegt að flytja þannig lífskjör frá lágtekjufólki yfir til lífeyrisþega í krafti þess að enginn megi tapa á breytingunni?