141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm fyrir ræðuna og sérstaklega upptalningu á öllu því ágæta samfylkingarfólki sem á að hafa staðið að þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Það var mært og veitir ekki af því að mæra það eins og staðan er í dag.

Hv. þingmaður sagði að bótaflokkunum fækkaði úr fjórum í tvo. Ég vil spyrja hvernig hún fær það út. Er ekki ellilífeyrir, sérstök uppbót samkvæmt 60. gr. og heimilisuppbót? Eru ekki þrjár tegundir bótaflokka í kerfinu? Þeir eru nákvæmlega jafnmargir og fyrir árið 2008 þegar framfærsluuppbótin var tekin upp.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann hvernig hún horfi til þeirra lýðfræðilegu atriða sem ég nefndi, að fjöldi ellilífeyrisþega muni tvöfaldast, fjöldi þeirra sem verða 70 ára muni tvöfaldast frá því sem nú er næstu 15 árin. Hvernig eigum við að mæta því? Ætlum við einungis að telja upp nokkra hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar til að lækna það mein?