141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður sagði að unnið hefði verið að málinu með öryggi og festu, ég held ég fari rétt með það. (Gripið fram í.) Ég efast ekki um að hv. þingmaður muni vinna að málinu með sama öryggi og festu og hefur verið gert að hennar mati hingað til. Einhvern veginn sé ég ekki vinnu nefndarinnar felast í öðru en að senda málið út til umsagnar, þ.e. miðað við hversu lítið er eftir af þinginu.

Ég hef hins vegar töluverðar áhyggjur, og ég þykist vita að hv. þingmaður hefur það líka, af stöðu ríkisfjármála. Það kemur fram í umsögninni, og mörgum öðrum umsögnum um frumvörp og þingsályktunartillögur, sérstaklega þó frumvörp, sem er verið að leggja fram hér, að verkefnin rúmast ekki innan svokallaðrar ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Ég velti því fyrir mér hvort sum ráðuneyti fari eftir ríkisfjármálastefnunni og önnur ekki því að fyrir áramót var Fæðingarorlofssjóður og Ríkisútvarpið afgreitt og við þekkjum þörfina og vandræðin á Landspítalanum o.s.frv.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér um að beita þurfi sérstöku öryggi og mikilli festu við stjórn ríkisfjármálanna í náinni framtíð. Öll málefnin eru góð og fín og allir vilja veita meira fjármagn til þeirra en það verður að vera til fjármagn, það þekkjum við auðvitað. Ef við förum ekki varlega í þeim málum förum við að mínu mati fram af bjargbrúninni og missum tökin á ríkisfjármálunum. Það er gríðarlega mikilvægt að ná tökum á þeim vegna þess, og hv. þingmaður veit það jafn vel og ég, að við greiðum 90 milljarða í vexti á þessu ári, um 400 milljarða á næstu fjórum árum, samt í skjóli gjaldeyrishafta.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki sé líka mjög mikilvægt að hennar mati að taka af miklu öryggi og festu á ríkisfjármálunum.