141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað sem hver segir er það ómótmælanleg staðreynd að tekin var um það ákvörðun að ganga til þess að skerða bætur til ellilífeyrisþega. Ég hef alveg skilning á því að það þurfti líka að bera þar niður. Það sem ég var einfaldlega að vekja athygli á er það að gengið var fram með þeim hætti að búnar voru til tekjuskerðingar sem höfðu þær afleiðingar sem við sjáum, sem frumvarpið kveður á um að við ætlum að hverfa frá.

Það sem ég er einfaldlega að draga fram er þetta: Mér finnst það ekki mjög trúverðugt að nú allt í einu sé lagt fram frumvarp sem boðar betri tíð með blóm í haga eins og ekkert sé á sama tíma og fjárlagaskrifstofan vekur athygli á því að þetta sé langt út fyrir þann ríkisfjármálaramma sem markaður hefur verið til fleiri ára.

Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því að sú stefna var mótuð við niðurskurðinn að auka þessar tekjutengingar svona mikið eins og hæstv. velferðarráðherra kom inn á hér áðan. Það hafði þessar afleiðingar og nú er verið, (Forseti hringir.) nú rétt fyrir lok kjörtímabilsins, að boða algjöra stefnubreytingu og það er uppgjör við þá stefnu sem (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn fylgir.