141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:30]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðu um frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Ég hef fengið að vera með í þeim starfshópi sem unnið hefur að málinu og hef lært mjög mikið um það flókna kerfi og fengið að upplifa að það er svo sannarlega þörf á því að einfalda það. Það er einmitt annað meginmarkmiðið með frumvarpinu, þ.e. að einfalda kerfið þannig að allir skilji það. Í starfshópnum fór fram mikil og góð umræða og vinna. Í hópnum sátu aðilar vinnumarkaðarins, fagaðilar, lögfræðingar og stjórnmálamenn. Tekist var á í hópnum og málin rædd af mikilli hreinskilni. Það sem mér fannst vera merkilegast í vinnunni var hversu mikil áhersla var lögð á að við gerðum allt sem hægt væri til að virkni og sjálfstæði eldri borgara og þeirra sem ekki geta starfað á vinnumarkaði vegna sjúkdóma eða fötlunar, væri sem allra mest.

Eins og ég lít á frumvarpið eru það tvö meginmarkmið sem skipta öllu máli þar. Annars vegar er kerfið einfaldað mjög mikið og verður aðallega einn bótaflokkur, ellilífeyrir, þó að aðrir séu gildir fyrir ákveðinn hluta fólks. Það sem skiptir svo miklu máli er að eftir breytingarnar ætti almenningur að geta skilið kerfið. Orðið hafa lagabreytingar á kerfinu í gegnum tíðina, eitthvað hefur komið upp á þannig að bæta hefur þurft við bótaflokki og hafa þá komið einhverjar skerðingar á móti. Kerfið var því í raun orðið mjög illskiljanlegt nema bara fyrir sérfræðinga á sviðinu. Ég held því að þessi einföldun sé til mjög mikilla bóta.

Vegna þess hversu mikill bútasaumur kerfið var orðið má eiginlega segja að skerðingarnar hafi verið slíkar að fólk var búið missa trúna á hið almenna lífeyrissjóðskerfi. Það sá ekki tilganginn með því að greiða í lífeyrissjóð þegar ákveðinn flokkur, framfærsluuppbótin, var þannig úr garði gerð að hún skerti í raun lífeyrisréttinn krónu á móti krónu. Ég held að það skipti mjög miklu máli vegna þess að ég hef t.d. hitt ungt fólk sem veltir því verulega fyrir sér hver sé tilgangurinn með því að greiða í lífeyrissjóðs þegar við fáum iðulega fréttir af skerðingu á bótum.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er fyrst og fremst framfærsluuppbótin sem skerðist. Hún var sett fram vegna þess að ákveðinn hópur eldri borgara og öryrkja var með það lágar tekjur að hann hafði í raun ekki möguleika á því að framfleyta sér. Þess vegna kom þessi bótaflokkur til og það er þar sem króna skerðist á móti krónu. Markmiðið með frumvarpinu er að þessi flokkur detti smám saman út og öllum verði með öðrum hætti tryggð lágmarksframfærsla.

Það er líka nýmæli í þessu kerfi og skiptir miklu máli að allar tekjur eru jafngildar. Þegar við skoðum heildartekjur og hvaða tekjur rýra, ef svo má segja, þann bótarétt sem maður á úr almannatryggingakerfinu þá vega allar tekjur jafnt. Eins og kerfið er núna vega tekjur, lífeyristekjur, atvinnutekjur o.s.frv., mismikið. Ég held því að það sé til mikilla bóta og geri það að verkum að allir ættu að geta skilið kerfið betur. Í raun og veru er meiri sanngirni varðandi tryggingabætur, lífeyristekjur og atvinnutekjur og ákveðinn hvati til að afla sér atvinnutekna og til að spara. Það skiptir mjög miklu máli. Við megum ekki gleyma þeirri miklu áherslu sem lögð hefur verið á virkari velferðarstefnu sem við í starfshópnum höfum talað mikið um og viljum gjarnan ná fram þegar við komumst í það og ræða síðan um breytingar á þeim hluta kerfisins sem varða öryrkja. Þá munum við ræða meira um starfsgetu og virkari þátttöku. Ég held að það skipti allt saman mjög miklu máli.

Verið hefur talsverð umræða um að við værum ekki nógu meðvituð um hversu mikið eldri borgurum þessa lands muni fjölga á næstu áratugum. Við gerum okkur kannski ekki alveg grein fyrir því en mig langar til að við höldum því á lofti að eldra fólk í dag er miklu virkara en áður, það hefur unnið öðruvísi, er ekki eins slitið líkamlega, hefur verið duglegra við að rækta sig sjálft, bæði andlega og líkamlega. Ég held því að hér verði öðruvísi kynslóð eldri borgara eftir einn eða tvo áratugi. Þar höfum við unnið ákveðið forvarnastarf og eldri borgarar verða hressari og betur á sig komnir en áður. Eldri borgurum mun fjölga í framtíðinni, við eldumst öll en og þurfum aðallega á sérstökum úrræðum að halda síðustu æviárin. Við getum meira að segja talað um hluti eins og tölvulæsi og tölvunotkun þeirra sem brátt komast á eldri ár, sumir geta jafnvel nýtt sér ákveðna aðstoð í gegnum netið.

Ég held að það sé afar gott að það frumvarp sem er hér fram komið fari til velferðarnefndar og verði sent út til umsagnar þannig að það komist í umræðu í samfélaginu og þeir aðilar sem láta sig málið varða komi með athugasemdir við það, sem ég á ekki von á að verði mjög margar þar sem allir aðilar hafa komið að málinu. En eftir sem áður er alltaf gott að skoða þær athugasemdir sem fram koma við mál. Ég hlakka til vinnunnar sem fram undan er og vona svo sannarlega, þó að við náum hugsanlega ekki að ljúka málinu núna, að sú umræða sem hér fer fram nýtist og eins þær umsagnir sem fram koma um málið.