141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:45]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þurfum að sjálfsögðu að forgangsraða og við verðum að fara í gegnum það hvað er nauðsynlegt og hvað ekki. Að sjálfsögðu erum við mjög skuldug, um það deilum við ekki, en hvort við eigum síðan að fara að tala um orsakir þess er annað mál, við reynum jú að horfa á framtíðina. Við erum mjög skuldug, en það hljóta að vera ákveðin einkenni á siðuðu samfélagi og eitt af þeim finnst mér vera það að við verðum að sjá til þess að eldri borgarar, sem lokið hafa skyldum sínum við samfélagið, hafi þokkalega framfærslu. Ég þykist vita að hv. þingmaður hefur, eins og ég, fengið sögur af því hversu illa sumir eldri borgarar eru staddir, við hversu bág kjör þeir búa. Þess vegna finnst mér við þurfa að forgangsraða í þá veru.

Farið er varlega af stað. Við lítum til margra ára, við förum hægt og rólega í það að breyta framfærsluuppbótinni sem mér varð tíðrætt um, ég tel að það sé skynsamleg leið til að efla eldri borgara í því siðaða samfélagi sem við viljum lifa í og það finnst mér við eigum að gera. Mér finnst að við verðum að viðurkenna að við getum ekki gert allt fyrir alla, einn, tveir og þrír, það eru bara ákveðin stjórnmálaöfl sem ætla að gera það, jafnaðarmenn ætla til dæmis ekki að gera allt fyrir alla, einn, tveir og þrír. En til þess að byggja hérna upp verðum við að horfa til langs tíma og segja: Við byrjum hægt og rólega og kannski eftir fjögur, fimm ár verðum við komin þangað sem við viljum helst vera og þetta frumvarp er dæmi um slíkt. Við ætlum ekki að gera allt fyrir alla, einn, tveir og þrír.