141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún sagði að allir mundu skilja þetta kerfi núna. Ég stórefa það. Þetta er sama staðan og var fyrir árið 2008 og ég held að ekki hafi allir skilið kerfið þá.

Við erum með þrjá bótaflokka; ellilífeyri, uppbót og heimilisuppbót. Ellilífeyririnn er einfaldur eins og hann er í núgildandi kerfi. Uppbótin er flókin, hún er fyrir þá sem búa á Íslandi. Heimilisuppbótin er líka flókin, jafnflókin og hún var. Það sem er kannski til einföldunar er að engin frítekjumörk eru lengur. En ég efast um að allir muni skilja þetta, kannski munu örfáir fleiri skilja það.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann hvað varðar tekjur. Nú eru allar tekjur settar jafnt, hvort sem þær koma úr lífeyrissjóði, vegna atvinnutekna, það sem menn vinna fyrir, og hins vegar fjármagnstekjur. Finnst hv. þingmanni eðlilegt að fjármagnstekjur sem jafnvel eru neikvæðar — vextir af einhverri sparisjóðsbók eru óverðtryggðir, kannski 3% í 4% verðbólgu, það er tap, fyrst er það skattað og svo kemur það inn til frádráttar sem tekjur, neikvæðar tekjur, þ.e. það sem er í raun neikvæðar tekjur kemur inn til frádráttar sem tekjur. Finnst hv. þingmanni það eðlilegt? Og finnst henni eðlilegt að á sama tíma skuli bætur frá félagsþjónustu sveitarfélaganna ekki koma fram sem tekjur? Að bætur frá félagsþjónustu sveitarfélaganna sem eru tekjur inn á heimilið eins og hvað annað — ég sé engan mun á því hvort menn fá 100 þús. kr. frá sveitarfélaginu eða 100 þús. kr. fyrir að skúra, ég sé ekki muninn á því fyrir heimilið, þetta eru jafnmiklar tekjur. En það sem kemur frá sveitarfélaginu telst ekki tekjur í því að skerða, en hitt telst það að fullu. Ég vil spyrja hv. þingmann um þetta líka.