141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að ég yrði að viðurkenna það að þetta væri einföldun. Yfirleitt viðurkennir fólk glæpi. Ég get kannski fallist á að einföldun er á kerfinu eftir að búið var að flækja það með framfærsluuppbótinni. Þá er þetta einföldun. Kerfið var nefnilega stórkostlega flækt með framfærsluuppbótinni sem kom í september 2008 nánast umræðulaust og var samþykkt umræðulaust líka sem lög árið 2009, minnir mig. Þá var kerfið flækt svo mikið að ég get vissulega fallist á að þetta sé einföldun frá þeirri flækju. En þetta er eiginlega sama kerfið og var fyrir árið 2008, burt séð frá því að nú eru tekjuflokkarnir allir án frítekjumarka.

En þá lendum við í því að um tvenns konar tekjur er að ræða, sem eru undarlegar. Annars vegar bætur frá félagsþjónustu, að þær skuli vera undanþegnar enn þá þrátt fyrir að bent hafi verið á það aftur og aftur að það séu tekjur eins og hvað annað. Þetta eru tekjur inn í heimilið eins og hvað annað. Þá var einhvern tíma sagt að þetta væri til að mæta kostnaði. Ég vil því spyrja, herra forseti: Hvað af mínum tekjum er ekki til að mæta kostnaði? Og hvað af tekjum fólks yfirleitt er ekki til að mæta kostnaði? Á þá ekki allt að vera bara frjálst og skattfrjálst og án skerðinga á bótum?

Hins vegar varðandi tekjurnar, ég er afskaplega ósáttur við að fjármagnstekjur séu metnar eins og aðrar tekjur, jafnvel þegar þær eru tap.

Ég fellst á að þetta sé einföldun á kerfinu, en ég ætla ekki að viðurkenna eitt eða neitt, enda ekki framið glæp. Ég fellst á að þetta sé einföldun frá þeirri flækju sem búið var að taka upp en það er ekki miklu einfaldara en það var fyrir árið 2008.