141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[14:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp hæstv. velferðarráðherra um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Það blasir auðvitað við og allir gera sér væntanlega grein fyrir því hver framgangur málsins getur verið. Það fer til hv. velferðarnefndar til umsagnar eftir 1. umræðu og meira gerist ekki á þessu þingi. Þar með er ég ekki að halda því fram að ekki sé í lagi að leggja málið fram, það er að mínu viti allt í fína lagi en segir til um ferlið sem er fram undan og er fyrirsjáanlegt. Ég veit ekki hvort hæstv. velferðarráðherra ætlar að reyna að slá sér upp á því sem og stjórnarflokkarnir í kosningabaráttunni, ég átta mig ekki á því en það verður væntanlega að koma í ljós. Það er auðvitað annarra en núverandi stjórnvalda að framkvæma það sem kemur fram í frumvarpinu.

Það er ágætt að rifja upp að með fyrstu verkum þessarar hæstv. ríkisstjórnar var að gera atlögu að öryrkjum og ellilífeyrisþegum. Það var gert með bandormi 1. júlí 2007 þar sem voru lagðar fram ákveðnar skerðingar eða breytingar á lögum sem fólu í sér tímabundnar skerðingar sem sneru að ellilífeyrisþegum og öryrkjum. Þær eru reyndar ekki allar komnar til baka, langt frá því. Það sem var merkilegt í þeirri umræðu var að gengið var mun harkalegar fram en talað var um að lögin mundu gera. Mér er það mjög minnisstætt. Ég segi að lagður hafi verið fram bandormur en það eru ekkert annað en kyrkislöngur þegar ríkisstjórnin leggur fram einhverja tekjuáætlunarbandorma. Þá var reiknað með því að á ársgrundvelli væru skerðingarnar í kringum 7 milljarðar kr.

Þar sem ég á sæti í hv. fjárlaganefnd man ég vel eftir því að við fjárlagagerðina fyrir árið 2010 komu fulltrúar þeirra félaga eða fulltrúar annars vegar ellilífeyrisþega og hins vegar öryrkja og kvörtuðu sáran undan því við hv. fjárlaganefnd að afleiðingarnar af samþykkt frumvarpsins væru miklu meiri en gert var ráð fyrir. Áhrifin á tekjur hópanna voru mun meiri en var gert ráð fyrir og talað um við framlagningu frumvarpsins. Það kom bersýnilega í ljós við fjáraukalagagerðina 2010, því að þá var auðvitað komin reynsla á þetta í eitt ár, að ellilífeyrisþegarnir og öryrkjarnir höfðu rétt fyrir sér af því þá komu breytingartillögur frá fjármálaráðuneytinu þar sem menn höfðu séð hverjar afleiðingarnar voru. Þær voru, ef ég man rétt, í kringum 4 milljarðar kr.

Talað var um áhrifin sem hlytust af því að fara í þær aðgerðir gagnvart ellilífeyrisþegum og öryrkjum og áætlunin var um 7 milljarðar á ári en niðurstaðan var um 11 milljarðar. Það staðfestir málflutning fulltrúa ellilífeyrisþega og öryrkja. Það eru staðreyndir málsins.

Ég hef komið í tvö eða þrjú andsvör og bent hv. þingmönnum á mikilvægi þess að fara að forgangsraða í ríkisfjármálum. Frumvarpið sem við erum að fjalla um er að mörgu leyti gott og svo sem ekkert slæmt um það að segja. Ég hef alla vega ekki rekið augun í það þótt auðvitað sé ekki hægt að gera sér nokkra grein fyrir öllu því sem kemur fram í frumvarpinu á einhverjum örfáum mínútum eða klukkutímum. Það er stutt síðan málið kom fram. Það eru um 123 lagagreinar ásamt ýmsum bráðabirgðaákvæðum. Það verður í raun og veru ekki fyrr en í meðförum hv. velferðarnefndar sem maður getur greint einstaka þætti þess sem kemur fram.

Það eru kannski ekki miklar pólitískar deilur um hvort menn vilji koma til móts við ellilífeyrisþega sem hafa nú þegar skilað sínu verki ef það má orða það svo. Þeir hafa staðið skil á þeim grunni sem núverandi kynslóð byggir á. Þeir hafa byggt hann upp með miklu harðfylgi og óeigingirni og eiga að geta átt, eins og oft er sagt, áhyggjulaust ævikvöld. Það er mín skoðun að til þess að svo megi verða verði menn að taka tillit til þess hvernig fjármununum er ráðstafað úr ríkissjóði. Ríkissjóður er sá sjóður sem greiðir hvort heldur sem er lífeyrisgreiðslur til ellilífeyrisþega og öryrkja, rekstur í heilbrigðisþjónustunni eða hvað sem það er. Að mínu mati er hann sá sem greiðir þær vitlausu fjárfestingar og bruðl sem er verið að borga á hinum endanum.

Það gefur augaleið að ef þú eyðir miklum peningum í önnur verkefni verða verkefni sem þessi að bíða. Það segir sig sjálft miðað við stöðu ríkisfjármálanna. Það hefur verið gert mikið úr því að náðst hafi gríðarlegur árangur og nú séu ekkert nema blóm í haga. Það er því miður ekki þannig því að skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs eru um 2.000 milljarðar kr. Til að árétta það enn eina ferðina greiðum við 90 milljarða í vexti á þessu ári, á næstu fjórum árum er gert ráð fyrir því að við greiðum um 400 milljarða í vexti, eingöngu í vexti sem er tvisvar sinnum það sem kostar að reka Landspítalann á hverju ári, svo við sjáum þær tölur í samhengi.

Síðan má heldur ekki gleyma því að þegar menn „presentera“ árangurinn í ríkisfjármálunum eru til að mynda fjárlögin 2013 að mínu mati skökk um tæpa 30 milljarða sem var mjög auðvelt að færa rök fyrir. Við settum það í nefndarálit 1. minni hluta við samþykkt fjárlaganna og bentum á þá liði sem vantaði inn þar.

Það hefðu verið hæg heimatökin fyrir hæstv. fjármálaráðherra eða aðra stjórnarþingmenn að koma og benda okkur á og gera athugasemdir við það sem var þar inni. Það var ekki gert í umræðunni þó svo hv. stjórnarliðar hefðu haft nægjanleg tækifæri til þess. Þeir kvörtuðu yfir því að umræðan hefði staðið yfir mjög lengi, í marga daga, svo ekki var það tímaskortur sem háði þeim við að gera athugasemdir. Til áréttingar er niðurstaðan sú að þegar við skoðum rekstur ríkisins þar sem er gert ráð fyrir fjárlögum og meira að segja þegar búið er að taka tillit til fjáraukalaganna, því eins og við vitum eru fjárlög ársins samþykkt í lok desember fyrir árið á eftir en síðan eru fjáraukalög flutt í desember — (PHB: Óvænt útgjöld.) Óvænt útgjöld, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Já, þau eiga að virka þannig en gera það því miður ekki. Það er tilgangur fjáraukalaga að bregðast við því sem er óvænt og ófyrirséð en því miður hafa þau ekki virkað þannig í áraraðir. Hvað um það.

Þau voru samþykkt í desember sama ár og fjárlagaárið sem við ræðum um eða tökum tillit til. Þrátt fyrir að lögð séu saman fjárlögin og fjáraukalögin á árunum 2010 og 2011, sem er þá endurskoðun á rekstri ríkisins í lok desember viðkomandi árs, munar samt rúmum 80 milljörðum á niðurstöðum fjárlaga með tilliti til fjáraukalaga og niðurstöðu lokafjárlaga ríkissjóðs. Það segir kannski allt um það sem við erum að ræða, um þann árangur sem menn „presentera“ í fjárlögum eða í umræðu um fjármál ríkisins og er að mínu viti ekki rétt.

Ég ætla að ítreka það sem ég sagði. Ef við förum í það sem ég hef kallað vitleysisfjárfestingar á þessum tímum með stöðu ríkissjóðs eins og hún er, eins og til að mynda byggingu húss íslenskra fræða sem kostar 3,4 milljarða eða reyndar 3,7 milljarða þar sem búið er að eyða í það 300 milljónum, á meðan við eyðum peningunum í þær á eftir að taka tillit til rekstursins. Það gleymist alltaf þó svo það standi mjög skýrt, og það er mjög merkilegt, að með tillögum um fjárútlát til stofnframkvæmda eigi að fylgja með hvaða þýðingu það hefur fyrir rekstur ríkissjóðs. En það er aldrei spáð í það og er aldrei nein umræða um það. Það er ákveðið að byggja hús íslenskra fræða og svo kemur í ljós að það kostar 200–500 milljónir að reka það þótt það kosti 3,4 milljarða í stofnframkvæmdir sem slíkar. Það er aldrei spáð í þetta.

Skýrasta dæmið til áminningar um það er mikil gagnrýni margra. Ég talaði mjög oft um það í ræðum mínum við gerð fjárlaga að setja ætti 500 milljónir í uppsetningu náttúruminjasýningar í Perlunni. Það kostar 500 milljónir að setja sýninguna upp. Í fyrstu tillögunni var gert ráð fyrir því að aðgangseyrir mundi standa undir leigugreiðslum og rekstri en auðvitað var raunin ekki sú og það tók meiri hlutinn út úr rökstuðningi með fjárlagatillögunni, meira að segja eftir að búið var að taka málið úr nefndinni til 3. umræðu.

Síðan kemur hæstv. menntamálaráðherra á fund fjárlaganefndar og segir að til standi að skrifa undir samning við Reykjavíkurborg og það kosti tæpar 200 millj. kr. að reka safnið. Það eru engar fjárheimildir fyrir því í fjárlögum og það verður ekki tekin afstaða. Þingið tekur ekki afstöðu til þess að þær 185 milljónir sem kostar að reka safnið árið 2014 verði ekki teknar fyrr en í haust. Þá tekur þingið ákvörðun um hvort það samþykkir að reka safnið fyrir 185 milljónir. Það eiga að koma 50 milljónir í sértekjur svo kostnaðurinn yrði 130–150 milljónir, það verður eitthvað svoleiðis. Það sem er merkilegt við það er að skrifa á undir samninginn um leiguna og setja 500 milljónir í kostnað við að setja upp sýninguna og spyrja svo þingið hvort það eigi að fá skaffaða fjármuni til að reka safnið. Þannig eru öll þau faglegu og góðu vinnubrögð. Það er mjög sérkennilegt að staðan skuli vera svona.

Það er mjög áhugavert að fara yfir umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Ég verð að segja að þar er vægast sagt mjög hörð gagnrýni á þetta frumvarp. Ekki það að menn séu að gagnrýna frumvarpið sem slíkt og efnisatriði þess heldur er fjárlagaskrifstofan sem vinnur að þeim málum að benda á að frumvarpið passar ekki inn í ákveðna ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem er hennar eigin stefna. Það vill þannig til að ef stefnan er lesin stendur mjög skýrt í henni hvað þarf að gera. Ég ætla að fá að lesa það orðrétt, með leyfi forseta:

„Umtalsverður hallarekstur ríkissjóðs leiðir hratt til ófarnaðar og gerir skuldastöðuna ósjálfbæra. Viðvarandi hallarekstur kallar á frekari lántökur og þar með aukinn vaxtakostnað fyrir ríkissjóð sem að endingu yrði að mæta með enn harkalegri niðurskurði eða öðrum aðgerðum síðar. Sjálfbærni í ríkisrekstrinum er því lykilforsenda þess að Ísland geti áfram skipað sér á bekk með norrænum velferðarríkjum.“

Það er skýrt markmið ríkisstjórnarinnar. Stefnan var lögð fram fyrir fjárlagagerðina, uppfærð, sú sama árið 2009–2013 og 2012–2015. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

Síðan leggja ráðherrar ríkisstjórnarinnar fram frumvarp hægri, vinstri. Maður stoppar ekki í milljörðum heldur í tugum milljarða í útgjaldaaukningu á næsta kjörtímabili sem hæstv. ríkisstjórn eða ráðherrar hennar leggja fram þrátt fyrir að þeir séu væntanlega hluti af ríkisstjórninni í ríkisfjármálastefnunni. Svo eru menn hissa á því að gagnrýni komi frá fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem heldur utan um það sem heitir ríkisfjármálastefna. Menn eru hissa á því að gagnrýnin skuli vera harkaleg en verið er að benda á að sé haldið á sömu braut verður ekkert svigrúm til að fara í þetta. Annaðhvort eru menn að vinna eftir ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar eða útgjaldastefnu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki hægt að vinna eftir hvoru tveggja. Það á ekki að koma hæstv. ráðherrum á óvart þegar hörð gagnrýni kemur frá fjárlagaskrifstofunni.

Verið er að tala um hér að við fetum okkur áfram inn í svokölluð rammafjárlög. Ég get ekki séð hvernig það á að geta gerst á meðan hugsunin er svona í þinginu.

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég held að staðan sé þannig að einstaka hv. þingmenn hafi meiri áhyggjur af því hvort þeir nái kjöri sjálfir en hvort ríkissjóður standi með eðlilegum hætti. Ég held þeir spái miklu meira í hitt. Ég held þeir spái miklu meira í hvort þeir geti farið út í kosningabaráttuna með einhvern loforðalista sem tryggir þeim kjör en hvort ríkissjóður sé sjálfbær. Hvað er verið að gera þá? Það er alltaf verið að henda vandamálunum inn í framtíðina, þ.e. til barnanna og barnabarnanna. Það er auðvitað mjög gott að lifa í vellystingum sjálfur og láta aðra um að framkvæma verkin. (PHB: Kaupa atkvæði.) Hv. þm. Pétur H. Blöndal segir kaupa atkvæði en ég vil kannski ekki kveða svo sterkt að orði. Ég verð að segja að að mínu mati verður að setja lög eins og á sveitarstjórnarmenn, þ.e. á sveitarstjórnarstiginu. Það verður að setja lög á hv. þingmenn og hæstv. ráðherra sem gera þeim skylt að fara eftir ákveðinni ríkisfjármálastefnu sem byggist á því að greiða niður skuldir ríkissjóðs og gera hann sjálfbæran. (Gripið fram í.)