141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[15:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til í þróun málsins að viss orð verða feimnisorð. Þau verða neikvæð, fá neikvæða merkingu, eins og bætur. Bætur eru hugsaðar til að ná yfir það að fólk fái eitthvað án þess að hafa unnið fyrir því. Það er bara þannig. Það sem menn borga í lífeyrissjóð taka þeir út aftur í lífeyri og gera það í mismiklum mæli eftir því hvað þeir eru heppnir eða óheppnir varðandi það að lenda í þeim hópi sem fær lífeyri.

Ég sé ekkert að því að kalla hlutina því sem þeir heita. Menn geta svo sem kallað þetta samfélagstekjur eða hvað þeir vilja segja fallegt um þetta, en það breytir ekki eðli málsins. Maður sem hefur ekki greitt í lífeyrissjóði eða nokkurn skapaðan hlut og er illa settur fær þess vegna styrk frá samfélaginu sem heitir bætur. Það eru einhverjir aðrir sem borga fyrir hann. Það er þannig. Skattgreiðendur greiða inn í kerfið af tekjum sínum og það heita skattar hjá þeim og bætur hjá þessum manni. Menn geta svo sem, ef þeir vilja, ef þeim finnst þetta eitthvað erfitt, kallað þetta samfélagstekjur. Það breytir ekki eðlinu, það breytir ekki því að einhver borgar og annar fær. Sá sem fær hefur ekki unnið fyrir því sem hinn vann fyrir.