141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[15:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni áðan að þegar við fjöllum um þessi mál, þ.e. lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, verðum við alltaf að hafa í huga það grundvallaratriði að þær greiðslur sem við ætlum til eldri borgara í landinu byggja á tveimur stoðum. Annars vegar á stoð ríkissjóðs getum við sagt sem rennur í gegnum almannatryggingakerfið og hins vegar lífeyriskerfið. Það sem er svo ánægjulegt hjá okkur er að þrátt fyrir t.d. áföllin í kjölfar bankahrunsins 2008 greiða lífeyrissjóðirnir núna hærri greiðslur til eldri borgara en greitt er í gegnum almannatryggingakerfið.

Það er líka þannig að lífeyrisgreiðslur í gegnum lífeyrissjóði eru ekki bara einstaklingsbundnar greiðslur. Þegar við greiðum í lífeyrissjóði fer hluti af þeim greiðslum til að standa undir örorkubótum, makalífeyri og þess háttar og fólk fær þær greiðslur ekki endilega í samræmi við það sem það hefur greitt inn í lífeyrissjóðina. Það er samtryggingarkerfi lífeyrissjóðanna. Þetta verða menn að hafa í huga.

Ég nefni þetta vegna þess að mér hefur fundist að á síðustu vikum og mánuðum hafi farið fram umræða sem er mjög ábyrgðarlaus gagnvart stöðu lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðakerfið okkar er að mörgu leyti einstakt. Það er ekki gegnumstreymiskerfi heldur kerfi þar sem við söfnum upp lífeyrisréttindum sem við njótum síðan á efri árunum. Til að það gangi eftir þarf að vera tiltekin ávöxtun á lífeyrissjóðunum, 3,5% raunávöxtun, til að við fáum til baka það sem við greiðum í sjóðina.

Eins og ég nefndi áðan eru að verða mjög hraðar lýðfræðilegar breytingar á Íslandi. Við höfum verið mjög ung þjóð. Talið er að þeim sem munu njóta greiðslna í gegnum lífeyrissjóði og almannatryggingar á grundvelli aldurs muni fjölga úr 35 þús. manns á þessu ári upp í 63 þús. manns árið 2030, hér um bil tvöfaldast. Þetta er áskorunin. Þetta er verkefnið okkar. Þess vegna verðum við, um leið og við ræðum þessi mál, að gæta þess að reyna að standa vörð um lífeyriskerfið okkar.

Bara af þessum ástæðum sem ég hef nefnt liggur fyrir að óhjákvæmilegt verður að hækka lífeyrisaldur Íslendinga úr 67 ára aldri upp í 70 ára aldur á næstu 20 árum, smám saman á næstu 20 árum. Þá er allt annað eftir. Þess vegna verðum við að tala af mikilli ábyrgð um lífeyrissjóðina. Þeir eru ekki ótæmandi lind sem við getum gengið í heldur er þetta kerfi einfaldlega hugsað til að mæta þörfum okkar eftir því sem við eldumst.

Almannatryggingakerfið er þarna við hliðina, það er hin stoðin okkar, og um það ræðum við nú. Það sem þetta frumvarp gengur út á er annars vegar tilraun til einföldunar og hins vegar tilraun til að reyna að komast út úr þeim vítahring sem núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur sett okkur í, sérstaklega með þeim tekjutengingum sem hún hefur verið að byggja inn í kerfið. Framfærsluuppbótin sem núna er greidd á að vera að lágmarki fyrir einstakling 203 þús. kr. á mánuði og fyrir þá sem búa með öðrum 175 þús. kr. á mánuði. Hún virkar þannig að fyrir hverja krónu sem greiðist úr lífeyrissjóði til slíkra einstaklinga skerðist framfærsluuppbótin um jafnháa upphæð. Frumvarpið kveður á um að minnka þá skerðingu um 20% strax og niður í 45% skerðingu þegar fram í sækir.

Vandinn er hins vegar sá að ekki er búið að sjá fyrir því með neinum trúverðugum né ábyrgum hætti hvernig menn ætla að fjármagna þetta til lengri tíma. Þar er skilað auðu. Það er ekki nógu gott. Þetta mál kemur fram á síðustu dögum þingsins. Það er öllum ljóst að í því felst stefnumótun, en það er ekki búið að svara mikilvægum spurningum. Frumvarpið mun auðvitað ekki hljóta afgreiðslu á svo skömmum tíma. Það verður sent til umsagnar (Forseti hringir.) og þá getum við á komandi þingi tekist á við verkefnið í raun og veru. (Forseti hringir.) Fortíðin er sú að hæstv. ríkisstjórn hefur skert kjör aldraðra en kemur nú með þetta frumvarp sem mun ekki hafa neina þýðingu, því miður, fyrir eldri borgara á (Forseti hringir.) þessu ári.