141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[16:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég skil ræðu hans svo að hann sé í megindráttum sammála þeim breytingum sem eru lagðar til hér og efnislega inntakinu um að einfalda kerfið, hafa það skýrt og afmarkað þannig að fólk skilji réttindi sín og hvað þeim stendur til boða þegar það þarf á því halda að fá lífeyrisgreiðslur úr almannatryggingakerfinu og félagslegan stuðning. Hv. þingmaður sagði jafnframt að ekki yrði hægt að fara í breytingarnar fyrr en búið væri að gera ákveðnar breytingar hér svo fjárhagur ríkissjóðs væri í jafnvægi. Ég er sammála hv. þingmanni um að það eigi að vera sameiginlegt markmið okkar allra að ná tökum á ríkisfjármálunum.

Er það svo, komist flokkur hv. þingmanns í ríkisstjórn, að málið verður lagt fram í þinginu þegar að loknum kosningum eða mundi Framsóknarflokkurinn taka aðra rispu á því og hugsanlega ekki leggja fram breytingar á almannatryggingakerfinu fyrr en einhvern tíma síðar?

Hvernig sér Framsóknarflokkurinn það fyrir sér?