141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[16:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég skil hv. þingmann þannig að nái Framsóknarflokkurinn því markmiði sínu að komast í ríkisstjórn [Hurð skellt.] — hér er hurðum skellt heyri ég — verði leitast við að halda því plani að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Ég geri þá ráð fyrir því, í ljósi þeirra miklu athugasemda sem voru gerðar við frumvarpið af fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, að áður en málið verður lagt fram aftur í þinginu, samhljóða því sem það er núna eða lítils háttar breytt en alla vega á grundvelli þeirrar undirbúningsvinnu sem allir flokkar hafa staðið að, verði farið í þá vinnu að skoða og leggja fram hvernig eigi að fjármagna þessar hugmyndir. Ég hef þá skoðun að ágætt sé að leggja fram hugmyndir en að það verði jafnframt að vera ljóst frá upphafi hvernig á að fjármagna þær. Það sem ég gagnrýni við málið er að það kemur í þingið á lokadögunum án þess að ríkisstjórnin hafi gert tilraun til að sýna fram á að einhver alvara sé á bak við breytingarnar af hálfu flokkanna sem stjórna og það liggur ekki fyrir hvernig á að fjármagna hugmyndirnar.