141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[16:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að mikilvægt er, og ég kom inn á það í ræðu minni áðan, að það sé algjörlega skýrt hvernig eigi að fjármagna aðgerðirnar. Það er í rauninni mjög óábyrgt að leggja fram tillögur án þess að búið sé að tryggja fjármögnun þeirra. Þær vekja upp væntingar og vonir hjá fólki sem þarf svo sannarlega á þeim að halda, því svo sannarlega eru margar af breytingunum jákvæðar, og það er ekki búið að undirbyggja tillögurnar.

Ég held að það ætti að vera forgangsverkefni á nýju kjörtímabili að forgangsraða öðruvísi í ríkisfjármálum. Við höfum séð að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur ekki verið forgangsraðað í þágu þessara málaflokka. Það eru ákveðnir þættir í samfélaginu sem hafa verið að stækka og fengið auknar fjárveitingar og þeir teljast ekki til grunnatriða. Við eigum að forgangsraða á annan hátt og vinna að áætlun. Við eigum líka að auka tekjurnar í íslensku samfélagi með aukinni atvinnusköpun, aukinni verðmætasköpun og hvetja frekar til þess heldur en að bregða fæti fyrir það líkt og núverandi ríkisstjórn hefur gert. Með því að gera það tvennt búum við til fjárhagslegan grunn undir mikilvægar aðgerðir eins og við erum að ræða.

Eins og ég rakti áðan ályktaði Framsóknarflokkurinn á síðasta flokksþingi meðal annars um hversu mikilvægt væri að við værum með fókusinn á þessum málaflokkum og forgangsröðuðum í þágu grunnstoða samfélagsins. Það hefur verið gengið svo hart að grunnstoðunum síðustu fjögur árin að það verður einfaldlega að fara að huga að því að byggja þær upp á nýjan leik. Ég vonast til þess að ef Framsóknarflokkurinn nær miklum styrk í komandi alþingiskosningum muni hann hafa afl til að ráðast í breytingarnar: Breyta forgangsröðun og efla atvinnuuppbyggingu. Þá höfum við skapað grunninn sem þarf til að ráðast í aðgerðirnar sem þetta frumvarp og fleiri þættir velferðarkerfisins þurfa svo sannarlega á að halda.