141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[16:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum afskaplega mikilvægt mál, heildarendurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni, hvorki meira né minna. Hana erum við að ræða hér 7. mars þegar þinglok nálgast og ekki bara það heldur þegar síðasta þingi þessa kjörtímabils er að ljúka, eftir átta daga, en stefnt er að þinglokum 15. mars. Reyndar verð ég að segja að það virðist ekki vera mikil alvara í þessu máli af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hér er enginn ráðherra sem þó mæla fyrir stórkostlegri kerfisbreytingu á þessu stóra og kostnaðarsama kerfi. Ég sé ekki formann hv. velferðarnefndar heldur í salnum. Reyndar sé ég engan í salnum fyrir utan okkur hæstv. forseta og starfsmann þingsins. Ég hlýt að spyrja hvar allt fólkið er sem ber ábyrgð á þessu máli og ætlar að svara fyrir það á þeim örfáu dögum sem eftir eru af þinginu, eða er þetta, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, bara kosningaplagg? Er þetta bara gulrót til að veifa rétt fyrir kosningar? Þannig geta frambjóðendur stjórnarflokkanna komið og sagt: Jú, jú, jú, auðvitað mundum við eftir gamla fólkinu sem við höfum annars ekkert rætt um síðan við skertum bæturnar í ársbyrjun 2009. Auðvitað mundum við eftir öryrkjum. Það var bara stjórnarandstaðan sem kom í veg fyrir að þetta mál næði fram að ganga. — Nú er ég að geta mér þess til hver línan í kosningabaráttunni verður hjá fulltrúum stjórnarflokkanna vegna þess að það eru engar líkur á að þetta mál fái framgang á þessu þingi, því miður, ekki vegna þess að þetta er ekki mál sem við gætum öll sameinast um að ná niðurstöðu um heldur vegna þess að tíminn er allt of knappur. Þetta veit þetta fólk, þess vegna er það ekki hér í salnum. Enginn er að velta fyrir sér athugasemdum og umræðum um þetta stjórnarfrumvarp. Stjórnarliðar meina ekkert með þessu.

Þetta mál vekur athygli mína. Það er eins og ég sagði gríðarlega stórt. Þetta er frumvarp upp á 123 greinar. Þetta er flókið mál um flókið kerfi sem snertir fjölmarga einstaklinga. Fjölmargir einstaklingar byggja lífsviðurværi sitt á framlögum úr almannatryggingakerfinu, hvort sem það eru aldraðir eða öryrkjar. Markmiðin eru fín. Markmiðin með frumvarpinu eru að gera lagaumhverfið einfaldara, skýrara og gegnsærra. Það hlýtur að vera markmið sem við getum öll tekið undir. Núna er næsta ómögulegt fyrir lífeyrisþega að gera áætlanir eða reikna út hverjar tekjur viðkomandi eru vegna þeirra flóknu skerðingarákvæða og þess flókna samspils á milli annarra tekna, lífeyrisgreiðslna úr almannatryggingakerfinu og úr lífeyrissjóðakerfinu. Það er því fínt að leggja fram frumvarp þar sem ætlunin er að einfalda þetta og skýra, en það verður að gefa þinginu tíma til að fara yfir þetta. Það er ekki nóg með að lífeyrisþeginn viti ekki hvað hann fær í tekjur vegna þess hversu kerfið er flókið heldur eru breytingarnar sem hér eru lagðar til líka gríðarlega flóknar auk þess sem þær eru gríðarlega kostnaðarsamar.

Ég hefði viljað að hæstv. ríkisstjórn, fyrst hún rann út á tíma með þetta mál sem hefur verið í undirbúningi lengi, hefði bara komið hreint fram og sagt: Hér er afrakstur þessarar vinnu — reyndar vinnu sem hófst árið 2007 með verkefnisstjórn um endurskoðun almannatrygginga sem sú er hér stendur átti sæti í um tæplega tveggja ára skeið. Og ríkisstjórnin hefði sagt: Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að á átta dögum er fullkomlega óboðlegt að nefna það að þetta mál verði hugsanlega klárað. — Við hefðum öll getað sameinast um það og þess vegna greitt fyrir því að málið færi umræðulaust til nefndar, yrði sent til umsagnar og umsagnir fengnar sem hægt væri að nýta á næsta þingi ef vilji stæði til. Vinnan sem liggur hér að baki er merkileg og mikil. Það er alveg rétt að hún hefur verið þverpólitísk en það er ekki rétt sem ég hef heyrt hæstv. fjármálaráðherra segja og hæstv. velferðarráðherra, ég ítreka að hvorugur er í salnum, að þetta sé afrakstur þeirrar þverpólitísku vinnu og þess vegna væri mögulega hægt að klára málið í sátt á þeim örfáu dögum sem eftir eru.

Fulltrúi okkar sjálfstæðismanna í nefndinni gerði stóran fyrirvara við eitt atriði. Það er sá gríðarlegi kostnaður sem þessar breytingar hafa í för með sér. Það væri allt í lagi ef ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði ákveðið að forgangsraða málum þannig að allur sá ávinningur sem hugsanlega fengist með bættum rekstri ríkissjóðs eða niðurskurði rynni í þennan málaflokk, yfirlýsingin væri að forgangsraða. Þetta kostar samkvæmt töflu á bls. 87, þ.e. aukning útgjalda umfram núverandi kerfi, hvorki meira né minna en 9,3 milljarða árið 2017. Þetta er frá 1.800 milljónum á þessu ári og fer síðan stighækkandi. Ef ríkisstjórnin hefði samhliða þessu frumvarpi lagt fram aðgerðaáætlun, eins og rætt er um að þurfi að gera í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, þá hefði þetta verið mjög fínt. Öll getum við sammælst um að við viljum gera vel við gamla fólkið okkar. Við viljum tryggja þeim sem ekki geta haft tekjur annars staðar frá vegna sjúkdóma eða fötlunar mannsæmandi líf. Þá þarf að forgangsraða. Það er það sem núverandi ríkisstjórn hefur ekki gert.

Á bls. 88 bendir fjárlagaskrifstofan á, með leyfi forseta:

„Til að viðhalda sömu stefnu og í núgildandi ríkisfjármálaáætlun þyrfti því að grípa til viðamikilla aðgerða á gjalda- og tekjuhlið. Minnt er á að til viðbótar við þessi auknu útgjöld eru ýmis önnur áform í farvatninu, t.d. aukin þróunaraðstoð, breytingar á öðrum bótakerfum og ýmsar framkvæmdir sem einnig kunna að rýra afkomu ríkissjóðs.“

Ég get nefnt nokkrar af þessum framkvæmdum: Það er nýr Landspítali sem er upp á rúma 85 milljarða, það eru Vaðlaheiðargöng, það er hús íslenskra fræða og ýmsar framkvæmdir hingað og þangað sem á að ráðast í núna. Maður skilur stundum ekki alveg málflutning ríkisstjórnarinnar. Það á að ráðast í þessar framkvæmdir vegna þess að ríkisstjórnin er búin að ná svo gríðarlegum tökum á ríkisfjármálunum. Svo þegar kemur að einhverjum málum þar sem setja á fólk í forgang er sagt: Hér varð hrun, við þurfum að líta í hverja krónu.

Það er mjög óábyrgt að setja fram svona frumvarp með öllum þeim góðu markmiðum og góða ásetningi sem því fylgir án þess að ræða kostnaðarhliðina með nokkru móti. Það er verulega hörð gagnrýni af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins í þessari kostnaðarumsögn. Það er tekið fram að ekki hafi verið haft samráð við ráðuneytið um möguleg áhrif fyrir ríkissjóð eins og áður hefur tíðkast í málum af svipaðri stærðargráðu. Af því að ég nefndi hér áðan að ég hefði átt sæti í upphaflegu verkefnisstjórninni, sem tók til starfa haustið 2007, þá var ég einmitt fulltrúi fjármálaráðuneytisins eða fjármálaráðherra í þeirri verkefnisstjórn og að sjálfsögðu leit ég svo á í því nefndarstarfi að það væri hlutverk mitt að halda fjármálaráðuneytinu upplýstu um þau áform og þær breytingar sem verið var að ræða á þeim tíma, að sjálfsögðu hefði aldrei verið lagt fram frumvarp af þessari stærðargráðu án þess að fjármálaráðuneyti og fjármálaráðherra kæmu að því. Mér þykir þetta því algjörlega ótrúlegt.

Í því nefndarstarfi var ýmislegt rætt. Það var eins og þetta, allir geta tekið undir meginmarkmiðin. Það þarf að einfalda bótakerfið, það þarf að minnka skerðingarnar og tekjutengingarnar og það sem ég mundi leggja áherslu á og hef gert í gegnum tíðina er að líta á þá sem þiggja greiðslur úr þessu kerfi sem einstaklinga en ekki hópa. Aldraðir eiga það eitt sameiginlegt að þeir eru fæddir á einhverju ákveðnu árabili. Þörf þeirra fyrir opinbera aðstoð er ekki eingöngu til komin vegna aldursins heldur fyrst og síðast ræðst sú þörf af heilsufari fólks. Þess vegna verður að skoða þessi mál með það að markmiði líka að hver einstaklingur geti haldið reisn og að við hjálpum fólki til sjálfshjálpar. Það var lagt til grundvallar í upphafsvinnu þeirrar nefndar sem ég átti sæti í. Þá var einmitt litið til þess hvernig hægt væri að tryggja það að fólk gæti unnið eftir ákveðinn aldur án þess að bætur skertust þannig að það gæti ráðið högum sínum betur. Líka var talað um, og það er nauðsynlegt að ræða það í þessu samhengi, hvernig við gætum bætt til dæmis þjónustu við eldri borgara, ekkert endilega með því að auka fjármagnið heldur með því að gera þjónustuna skilvirkari. Það er hægt að tala um óhagræðið sem maður heyrir víða af þegar heimaþjónusta og heimahjúkrun er skert, sem vissulega kostar pening en er þó mun ódýrara úrræði en þau dvalarrými eða hjúkrunarrými sem er það eina sem fólki býðst að lokum með miklu meiri tilkostnaði fyrir ríkið.

Virðulegi forseti. Nú er tími minn á enda þannig að ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Mér finnst stóra málið í þessu vera — og ég segi það bara hér — að þetta frumvarp sé lagt fram til kynningar. Það er sjálfsagt að skoða það með jákvæðum huga. Óheyrilegur kostnaður virðist liggja í þeim tillögum sem við gerum fyrirvara við. Stærsta gagnrýnin hlýtur þó að beinast að því að hafa ekki verið með fjármálaráðuneytið og fjárlagaskrifstofuna með í þessum útreikningum (Forseti hringir.) þannig að þær tölur sem við sjáum hér, (Forseti hringir.) eins háar og þær eru, séu á endanum það sem við erum að ræða um en það vitum við ekki.