141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég sat í þessari verkefnisstjórn frá hausti 2007 fram að hausti 2008 var starfið fyrst og síðast fólgið í því að kortleggja þær breytingar sem átti að gera. Á þeim tíma sem ég sat þarna voru ekki gerðar viðamiklar breytingar, heldur var verið að gera markmið fyrir framtíðarskipan og það voru minni háttar breytingar, dregið úr skerðingum og gerðar breytingar í árslok 2007 og aftur síðar.

Eins og ég nefndi í ræðu minni tel ég að stóru mistökin hafi verið þau að halda fjármálaráðuneytinu ekki upplýstu eftir að ný nefnd tók til starfa. Ég tel það algjörlega óábyrgt og það er svar við síðari spurningu þingmannsins, um það að starfshópurinn skilar af sér og mánuði síðar kemur kostnaðarmatið. Það hefði bara aldrei nokkrum manni dottið í hug að gera þetta svona, síst þegar menn vita um hversu stórar upphæðir er að tefla. Þess vegna gerir fulltrúi okkar sjálfstæðismanna í þessari nefnd fyrirvara við nefndarálitið við kostnaðinn. Við getum öll tekið undir markmiðin. Þetta eru rosalega fín markmið og í hinum fullkomna heimi, þeim heimi þar sem fjármununum er forgangsraðað fyrst í þennan málaflokk og þá tekið úr einhverju öðru og þannig greitt fyrir þeim markmiðum, (Forseti hringir.) væri hægt að gera þetta svona. En þegar ekki liggur fyrir nein áætlun um hvernig eigi að fjármagna þetta og menn vita ekki hvað þetta (Forseti hringir.) kostar er þetta bara óábyrgt.