141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svörin. Það væri mjög áhugavert að fá svör um þær ákvarðanir sem voru teknar varðandi breytingar á lífeyriskerfinu á árunum 2007 og 2008 og vita hvort þau yrðu jafnskýr og -afdráttarlaus.

Ég geri ráð fyrir að fjalla í ræðu minni aðeins um þær hugmyndir og þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar en mig langar að spyrja: Hefur þingmaðurinn eða flokkur hennar skoðað, velt fyrir sér eða lagt fram tillögur um það hvernig þurfi að breyta lífeyriskerfinu út frá þeirri staðreynd að við munum á næstu árum sjá æ stærra hlutfall af eldra fólki, þ.e. ellilífeyrisþegum, versus það sem við búum við núna, að þjóðin er tiltölulega ung? Telur hv. þingmaður og flokkur hennar koma til greina að hækka eftirlaunaaldurinn?

Það hefur verið kallað eftir auknum greiðslum inn í almenna lífeyriskerfið. Hér erum við að tala um að settir verði auknir fjármunir í opinbera kerfið. Hvernig getum við horfst í augu við hinar miklu samfélagsbreytingar fram undan, bæði að við erum með hærra hlutfall eldra fólks og jafnframt hóp af fólki sem er miklu heilbrigðara, hressara og getur tekið miklu virkari þátt í samfélaginu? Er eðlilegt að það fólk sé sett til hliðar við þessi aldursmörk?