141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fá að nefna þetta með aldurinn en eitt af því sem ég hef lagt áherslu á er að stuðla að sveigjanlegum starfslokum. Þegar ég kom að vinnslu frumvarps um heilbrigðisstarfsmenn reyndi ég ítrekað að tryggja að ekki væri verið að þvinga menn út af vinnumarkaði þegar þeir gætu sýnt fram á, meðal annars með læknisskoðun, að þeir væru fullfærir um að sinna því starfi sem þeir hefðu menntun, reynslu og þekkingu til. Mér fannst það sérstaklega brýnt varðandi heilbrigðisstarfsmennina og þá ekki síst læknana þar sem við sjáum fram á að skortur verði á læknum og þá einkum í heimilislækningum sem við höfum haft miklar áhyggjur af. Því miður náðist ekki samstaða um þetta í velferðarnefnd og ég verð að segja að mér finnst það mjög einkennilegt.

Hvað varðar fjármagnstekjur annars vegar og bætur hins vegar þá hef ég mjög mikinn áhuga á því, hafi ég eitthvað um það að segja á næsta kjörtímabili, að við förum í heildarendurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkisins — ég veit að það er stórt verkefni — og sérstaklega það sem snýr að skattlagningu á launatekjum og svo virðisaukaskattskerfinu. Það hlýtur að vera eitt af því sem við skoðum þó að þarna sé verið að tala um frádráttarliði. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að mér hefur verið bent á að þegar kemur að greiðslu skatta af launatekjum í nágrannalöndunum er mismunandi hvort menn geta dregið kostnað frá. Það er eitt af því sem við ættum að skoða í tengslum við þetta, þ.e. að við horfum ekki bara á tekjur sem frádráttarliði heldur ætti það líka að hafa sitt að segja ef menn bera mikinn kostnað, (Forseti hringir.) það ætti að sjálfsögðu að hafa áhrif á að þeir fái auknar greiðslur. Ég vona að hv. þingmaður skilji hvert ég er að fara með þessu.