141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það einkennir skattkerfi með háum skattprósentum að þar koma inn alls konar frádráttarliðir vegna þess að hvatinn til að vinna, hvatinn til að afla þeirra tekna sem eru skattaðar, minnkar þegar skattprósentan hækkar. Þá er reynt að horfa til þess hvaða kostnað menn hafi af viðkomandi starfi. Þýska skattkerfið er til að mynda þannig að hægt er að draga frá alls konar kostnað við að afla teknanna. Maður getur til dæmis dregið frá batterí í heyrnartæki að því leyti sem það er notað í vinnunni. Kerfið er kannski orðið mjög langsótt og þá gerist það að þeir sem hafa endurskoðendur og hafa nægilega mikla þekkingu fá endurgreitt en hinir, sem kerfinu er ætlað að vernda, fá ekki endurgreitt. Það er þess vegna sem ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að vera með lægri skattprósentu og færri undantekningar.

Varðandi þetta kerfi eru tekjurnar í raun tvískattaðar, þær eru fyrst skattaðar í skattkerfinu og svo eru þær skattlagðar sem frádráttur, sem lækkun á bótum. Sú skattlagning getur orðið mjög umtalsverð eins og hér er stefnt að, 45%, þannig að menn þurfa virkilega að skoða hvernig tekjuhugtakið er. Ég tel til dæmis að tekjuhugtakið í fjármagnstekjunum sé fráleitt þegar kemur að frádrætti, þetta eru oft á tíðum neikvæðar tekjur og auk þess er búið að skattleggja þær með 20% fjármagnstekjuskatti. Ef auk þess á að lækka bætur getur það orðið langt yfir — það er hvort sem er neikvætt, þannig að það er langt yfir 100% af raunverulegum tekjum.