141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[18:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Sú vinna sem hér er lögð fram er til kynningar. Ég geri ráð fyrir því, eins og margir aðrir hv. þingmenn sem hér hafa talað í kvöld, að þetta mál sé lagt fram til kynningar vegna þess að umfang þess er slíkt að varla dettur ríkisstjórninni í hug að það verði klárað á þeim örfáu dögum sem eftir eru af þinginu. Það er svo sem ágætt að þetta skuli loksins vera komið fram þó að ekki sé hægt annað en að hafa orð á því hversu undarlegt það er að svo stórt mál sem varðar framtíðarútgjöld ríkisins til allrar fyrirsjáanlegrar framtíðar skuli koma inn í þingið á síðustu stundu í stað þess að menn skiluðu fyrr af sér. Starfshópurinn skilaði af sér í október í fyrra, minnir mig, en frumvarpið berst okkur fyrst nú og fyrir vikið er okkur ekki kleift að klára málið. En eins og ég segi er ástæða til að fagna því að málið sé komið þó þetta langt vegna þess að frumvarpið snýst um málefni sem hefur verið brýnt að taka á mjög lengi. Ástæðan er sú að á meðan menn ná ekki að sammælast um framtíðarsýn hvað varðar lífeyriskerfið og félagslegan stuðning er hætt við að teknar verði ákvarðanir sem geri mönnum erfiðara fyrir að marka slíka framtíðarsýn eða að minnsta kosti raunhæfa framtíðarsýn um almannatryggingar, þ.e. ef ekki er búið að gera ráðstafanir, eins og í þessu tilviki, sem eru nauðsynleg forsenda þess að menn geti haft það fyrirkomulag á þessum hlutum sem við teljum öll æskilegt, eðlilegt og í rauninni nauðsynlegt í nútímasamfélagi, þróuðu velferðarsamfélagi.

Menn hafa gert athugasemdir við það að kostnaðurinn við þetta sé það mikill að óeðlilegt sé að ekki skuli vera búið að sýna fram á hvernig eigi að standa undir honum. Það má alveg taka undir þær athugasemdir, sérstaklega í ljósi þess að eins og kemur fram í frumvarpinu sjálfu, á síðustu blaðsíðu, þá liggur fyrir að verði frumvarpið staðfest muni þær áætlanir sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna út frá undanfarin ár, og sumar hverjar eiga að gilda til næstu ára, ekki standast. Hér erum við því komin með enn eitt dæmið um það að stjórnvöld hafi gefið upplýsingar um fjárhag ríkisins og framtíðarþróun hans sem þau máttu vita að væru ekki réttar, gætu ekki staðist miðað við þeirra eigin stefnu. Ég ætla að koma nánar inn á þetta, virðulegur forseti, síðar í ræðunni eða í næstu ræðu ef ekki vinnst tími til að fara yfir það hér. Þetta er mjög stórt atriði. Það hefur verið mjög bagalegt á þessu kjörtímabili að sjá það koma upp aftur og aftur að ríkisstjórnin, stjórnvöld, skuli vita af miklum útgjöldum sem eru í rauninni falin en gefi engu að síður út áætlanir til langs tíma án þess að gera grein fyrir útgjöldum sem þó er vitað um.

Við Íslendingar erum með vel fjármagnað lífeyriskerfi miðað við flestar aðrar þjóðir — miðað við. Ástæðan fyrir því að ég legg áherslu á að segja „miðað við“ er að við erum ekki með nógu vel fjármagnað lífeyriskerfi til þess að standa undir framtíðarvæntingum sem þegar hafa verið skapaðar, eðlilegum framtíðarvæntingum. Þar er auðvitað vandi lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna alveg sérstakt áhyggjuefni, en hann er utan við efni þessarar ræðu. Þessu lífeyriskerfi er viðhaldið með töluvert háum greiðslum launafólks í hverjum einasta mánuði, 12% af launum renna inn í þetta kerfi. Þessi 12% eru tala sem stjórnvöld líta iðulega fram hjá þegar þau halda því fram að skattar séu ekkert sérstaklega háir á Íslandi. Það er vinsælt núna að bera af sér sakir um háa skatta og skattpíningu á Íslandi með því að bera skatta hér saman við skatta annars staðar á Norðurlöndum og í öðrum nágrannalöndum en þá sleppa menn því að taka með í reikninginn að í þeim löndum er lífeyriskerfið yfirleitt fjármagnað með sköttum. Ef við bætum þessum 12% ofan á skattana sem Íslendingar eru látnir greiða getur enginn leyft sér að halda því fram að Íslendingar séu ekki skattpíndir, að þeir séu ekki látnir borga hærri skatta en víðast hvar annars staðar. Ég tala nú ekki um ef menn ætla svo að taka líka með í reikninginn — eins og eðlilegt er þegar samanburður er gerður á Norðurlöndum — hin ýmsu gjöld sem eru fjármögnuð með sköttum annars staðar á Norðurlöndum en innheimt hér jafnóðum, þ.e. fólk er látið borga hin ýmsu gjöld, ekki hvað síst í heilbrigðisþjónustu, sem eru fjármögnuð með sköttum annars staðar á Norðurlöndum. Þegar þetta bætist ofan á skattana, lífeyrisgreiðslurnar og hin ýmsu gjöld sem flest hver hafa hækkað allsvakalega á undanförnum árum, þá er ekki furða að menn skuli telja nóg komið af skattpíningu stjórnvalda og að hún sé komin langt umfram það sem hægt sé að kenna við velferð vegna þess að skattarnir séu orðnir það miklir að lítið sé orðið eftir af velferðinni, sérstaklega ef skattarnir eru svo ekki nýttir á skynsamlegan hátt.

Af því að ég er að ræða hér skatta og hvernig stjórnvöld hafa í rauninni mistúlkað og villt um fyrir fólki hvað þá varðar er ekki hægt annað en að tengja þá umræðu við lífeyrisgreiðslur sérstaklega, eins og menn hafa verið að gera. Eitt af því sem stendur til bóta með þessu frumvarpi er að draga úr þeim tekjutengingum sem nú eru orðnar slíkar að hvatinn til að leggja fyrir er nánast horfinn. Fólk sér ekki ástæðu til að borga aukalega inn í lífeyriskerfið vegna þess að allt sem það setur þangað inn er skert á móti öðrum greiðslum, um 100% jafnvel. Þetta fyrirkomulag getur auðvitað ekki gengið til lengdar enda átti það ekki að ganga svona til lengdar. Þessi aukna tekjutenging var sett á til bráðabirgða en eins og með svo margt annað var ekki staðið við fyrirheit um að afnema hana á tilsettum tíma. Fyrir vikið hafa eldri borgarar og öryrkjar tekið á sig hlutfallslega meiri skerðingar en flestir ef ekki allir aðrir hópar í samfélaginu og það í tíð hinnar svokölluð velferðarstjórnar.

Það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi hér áðan var áhugavert, um áhrif þessara breytinga á konur sem ákváðu að fara út á vinnumarkaðinn eftir að hafa verið utan vinnumarkaðar um skeið til að bæta lífeyrisréttindi sín. Þær tóku þá ákvörðun og höfðu réttmætar væntingar um að geta bætt kjör sín á efri árum þegar þær fóru út á vinnumarkaðinn, en nú sjá þær að það hefði kannski verið betra að sleppa því vegna þess að það sem þær lögðu fyrir er allt saman notað til að skerða aðrar greiðslur. Þetta er einn af þeim neikvæðu hvötum sem ég hef alltaf varað núverandi stjórnvöld við. Stjórnvöld þurfa að búa til jákvæða hvata, hvata sem leiða til skynsamlegrar hegðunar en ekki öfugt. Nú þarf íslenskt samfélag að sjálfsögðu á því að halda að fólk sjái ástæðu til að leggja fyrir og spara vegna þess að með því er hægt að ráðast í fjárfestingar, fjárfestingar sem eru nauðsynlegar til þess að skapa verðmætin, verðmætin sem við þurfum til að standa undir þessu öllu saman. Þarna er sem sagt verið að koma í veg fyrir eða að minnsta kosti draga úr myndun þess sparnaðar sem er nauðsynlegur fyrir fjárfestinguna sem er nauðsynleg fyrir verðmætasköpunina og verðmætasköpunin er nauðsynleg til þess að þetta frumvarp fái staðist, svoleiðis að sú stefna sem hér hefur verið rekin birtist okkur nú sem einhvers konar hringavitleysa.

Við þurfum að breyta þessu, við þurfum að skapa jákvæða hvata til sparnaðar og fjárfestingar. Þörfin er orðin býsna brýn vegna þess að á þessu kjörtímabili, sem lýkur m.a. með framlagningu þessa skjals, hefur fjárfesting á Íslandi og þar með atvinnusköpun verið í sögulegu lágmarki á tímum þegar tækifærin til að byggja upp atvinnu voru svo sannarlega til staðar og áhugi á fjárfestingu mikill ef hér hefðu ekki stöðugt verið settir neikvæðir hvatar, ýtt undir pólitíska óvissu og viðhaldið óvissu um mikilvæga þætti sem varða ákvarðanir um fjárfestingar eins og orkuöflun og skattkerfið. Þessu þarf að breyta til að við getum fjármagnað þetta og er ekki seinna vænna, eins og nokkrir ræðumenn hafa komið inn á hér í dag, vegna þess að meðalaldur íslensku þjóðarinnar fer fremur hratt hækkandi. Það er reyndar svolítið sláandi að það er eins og menn geri sér ekki grein fyrir því í hvað stefni hvað þetta varðar, a.m.k. er það ekki að sjá í þeim áætlunum sem ríkisstjórnin hefur gert um útgjöld til framtíðar.

Til þess að rökstyðja hvað ég á við ætla ég að vitna beint í frumvarpið, lokakafla þess, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd er áætlað að útgjöld ríkissjóðs vegna bóta til ellilífeyrisþega muni aukast strax á árunum 2013–2014 um 2–3 milljarða kr. Þegar ákvæði frumvarpsins væru að fullu komin til framkvæmda frá og með árinu 2017 er áætlað að árleg útgjaldaaukning muni nema 9–10 milljörðum kr. umfram áætlaða útgjaldaaukningu í núverandi kerfi. Gert er ráð fyrir að sú útgjaldaaukning umfram núverandi kerfi verði orðin um 20 milljarðar kr. árið 2040, eða sem nemur 65% af útgjöldum ársins 2012, og muni halda áfram að aukast eftir það.“

Svo er sérstaklega bent á í þessu frumvarpi að þetta þýði að áætlanir sem ríkisstjórnin sjálf hefur birt um framtíðarþróun tekna og útgjalda muni ekki standast. Maður veltir því fyrir sér: Vissu menn ekkert í hvað stefndi? Lá ekki fyrir viljinn til þess að laga þetta kerfi eins og stefnt er að með þessu frumvarpi? Jú, sá vilji lá fyrir, hann var yfirlýst stefna og meira að segja var gefið loforð um að draga úr tekjutengingunum sem var reyndar ekki staðið við. En þrátt fyrir þá vitneskju hafa stjórnvöld gefið út áætlanir sem ganga ekki upp í samhengi við þetta frumvarp. Með því er ég ekki að segja að ekki eigi að fara þessa leið. Ég hef verið þeirrar skoðunar að hægt sé að ná víðtækri sátt um framtíð almannatryggingakerfisins, þ.e. um lífeyrisréttindi, en hluti af þeirri sátt verður auðvitað að vera framtíðarsýn um verðmætasköpun til að standa undir kostnaðinum. Tíminn er fljótur að líða og þó að það virðist langt til ársins 2040 núna hugsa ég að það muni koma mörgum á óvart þegar þar að kemur, þegar árið 2040 er komið, hversu fljótur tíminn var að líða. Það þarf reyndar ekki að fara lengra en til 2017, til loka næsta kjörtímabils, því að það vill svo til að útgjaldaaukningin verður komin í 9–10 milljarða kr. á því ári. Þetta þarf að fjármagna og þess vegna er ekki hægt að ræða þetta öðruvísi en í samhengi við þörfina fyrir verðmætasköpun og þar af leiðandi þörfina fyrir algjöra stefnubreytingu í atvinnumálum á Íslandi.

Virðulegi forseti. Það eru mörg atriði sem ég náði ekki að koma inn á, þetta var eiginlega bara inngangur hjá mér, svoleiðis að ég verð að biðja yður að setja mig aftur á mælendaskrá.