141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[18:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að ástæða sé til að opna kerfið miklu meira en nú er, þ.e. gefa því fólki tækifæri til að vinna lengur sem hefur áhuga á því. Ég held við ættum að reyna eins og við mögulega getum að viðhalda eftirlaunaaldrinum sem valkosti fyrir þá sem vilja hætta að vinna þegar þeir ná þeim aldri, en opna á það að mönnum sé gefinn kostur á að vinna lengur ef svo ber undir.

Þau mál komu til umræðu í Svíþjóð nýverið. Ég man ekki betur en að fjármála- eða forsætisráðherra Svíþjóðar hafi talað um að hækka þyrfti eftirlaunaaldurinn þar í landi um 10 ár, úr 65 árum í 75. Það féll ekki í kramið hjá öllum en er til marks um þann vanda sem kerfið er komið í, jafnvel í Svíþjóð.

Ég held að við getum enn þá leyft okkur að viðhalda eftirlaunaaldrinum hér á landi en það væri æskilegt fyrir alla að fólk hefði meira val. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á eru menn að jafnaði miklu sprækari mun lengur en áður var og marga langar að starfa lengur.

Liðsmenn Rolling Stones eru að komast á áttræðisaldur. Þeir eru hvergi nærri hættir. Það væri synd ef þeir yrðu skyldaðir til að hætta að gera það sem þeir gera best, spila og syngja. Það sama ætti að eiga við um aðrar stéttir, fólk sem er enn í fullu fjöri og langar að halda áfram að vinna á að fá tækifæri til þess.