141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[18:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að víða í Evrópu er velferðarkerfið í raun komið í þrot. Það er hluti af þeirri svokölluðu evrukrísu núna að komið hefur verið á fyrirkomulagi sem fær ekki staðist og er ekki sjálfbært, svo ég noti orð sem er vinsælt nú um stundir. Við Íslendingar erum hins vegar svo heppnir að skera okkur nokkuð úr hvað það varðar því þótt íslenska þjóðin eldist að jafnaði nokkuð hratt, þ.e. meðalaldurinn hækkar nokkuð hratt, er staða okkar miklu betri en í flestum öðrum Evrópuríkjum. Við höfum tíma til að undirbúa okkur undir það að stærri hluti þjóðarinnar verði kominn á lífeyrisaldur. Þann tíma þarf auðvitað að nýta svoleiðis að við lendum ekki í sama öngstræti og mörg Evrópulönd eru komin í núna. Síðustu fjögur ár hafa ekki verið nýtt til að undirbúa þá þróun, búa í haginn fyrir framtíðina. Það hefur ekki verið ýtt undir þá verðmætasköpun sem er nauðsynleg til að standa undir sömu velferð eða aukinni velferð til framtíðar. Að hluta til eru þau mistök til komin vegna hugsunarvillu sem skýtur alltaf upp kollinum í hinum ýmsu vinstri hreyfingum og er sú að verðmæti verði til með skattlagningu. Það er einungis hægt að taka skatta til þess að fjármagna velferðina af verðmætasköpuninni. Skattarnir sem slíkir búa ekki til verðmæti. Það gleymist iðulega hjá vinstri flokkunum. Kosturinn við Framsóknarflokkinn, verandi miðjuflokkur, er að við gerum okkur bæði grein fyrir þörfinni fyrir traust velferðarkerfi og (Forseti hringir.) þörfinni fyrir að fjármagna það.