141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[18:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði, að þau eru ófá málin sem koma frá núverandi ríkisstjórn á lokadögum líftíma hennar sem fela í sér metnaðarfull útgjaldaáform á hinum og þessum sviðum og geta verið til vinsælda fallin, en sem engin hugmynd er um hvernig á að fjármagna. Það er sett í hendur næsta þings, næstu ríkisstjórnar, að fjármagna. Það er auðvitað mjög sérkennilegt. Við þekkjum dæmin um fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem aðallega á að koma til framkvæmdar eftir að ný ríkisstjórn hefur komið til sögunnar, en var engu að síður blásin upp sem mikið átak í átt að atvinnusköpun og atvinnuuppbyggingu og ég veit ekki hvað og hvað. Ríkisstjórnin hélt marga fundi til að kynna þetta og til að slá sér upp á því en hafði svo bara í smáa letrinu: Svo ætlumst við til að reikningarnir verði allir borgaðir eftir 1. maí 2013 og fram í tímann.

Sama á við um ótal önnur mál. Mér dettur í hug málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem er á dagskrá síðar í dag. Mér dettur í hug frumvarp sem tengist uppbyggingu á Landspítalasvæðinu, vissulega þarfar framkvæmdir við að endurbæta húsnæðiskost Landspítalans en þær á að fjármagna með opinberu fé og það á allt að koma til á næsta kjörtímabili. Það má eiginlega lýsa fjármálastefnu núverandi ríkisstjórnar þannig að hún hefur frestað öllum málum á starfstíma sínum, frestað því að ráðast í útgjaldamálin en á hinn bóginn sett fram mjög metnaðarfull áform um hvað aðrir eiga að fjármagna þegar líftíma ríkisstjórnarinnar lýkur. Það er kannski ekki hægt að áfellast ríkisstjórnina fyrir að marka framtíðarstefnu á ýmsum sviðum en það dregur hins vegar úr trúverðugleika þessara tillagna að samhliða metnaðarfullum útgjöldum eru ekki lagðar til tekjuöflunarleiðir sem geta staðið undir þeim útgjöldum sem ætlunin er að fara í, hvort sem það er í almannatryggingum, fæðingarorlofi, málefnum lánasjóðsins og svo má lengi telja. Eða þá allar þær framkvæmdir sem ríkisstjórnin ber sér á brjóst yfir að hafa tekið ákvörðun um að fara í en á ekki að byrja að borga fyrr en ríkisstjórnin er farin frá völdum. Þetta er svolítið sérstakt.

Ég held að þó að svona verklag sé auðvitað með sínum hætti ábyrgðarlaust þá verði maður að reyna að gæta þess að láta málefnin sem í hlut eiga ekki gjalda þess. Þess vegna vil ég endurtaka það sem ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar í dag að markmið frumvarpsins eru vissulega jákvæð og á margan hátt sýnist manni að þau stefni í rétta átt. Í meðförum þingsins, væntanlega þá aðallega á næsta kjörtímabili, þarf að fara yfir útfærslurnar. En stóra verkefnið sem við okkur blasir er hins vegar það að velta fyrir okkur hvernig við getum fjárhagslega staðið undir því að fara í þau metnaðarfullu áform, bæði á þessu sviði og fjölmörgum öðrum þar sem ríkisstjórnin hefur á síðustu mánuðum starfstíma síns verið að skrifa stóra tékka inn í framtíðina.