141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

635. mál
[18:53]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um slysatryggingar almannatrygginga. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að flytja ákvæði slysatryggingakafla gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, ásamt öðrum nauðsynlegum ákvæðum laganna í sérstök lög. Samhliða frumvarpinu hefur verið lagt fram frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning og er mikilvægt að fjallað verði sameiginlega um þau tvö frumvörp. Ætlunin er að ný lög um slysatryggingar almannatrygginga standi sjálfstætt við hlið þeirra laga og laga um sjúkratryggingar. Þannig munu þessi þrenn lög mynda heildstæða umgjörð um meginþætti almannatrygginga. Því til viðbótar eru í gildi ýmis sérlög á sviði félagslegs öryggis, bæði hjá ríki og sveitarfélögum.

Hæstv. forseti. Frumvarp þetta er samið í velferðarráðuneytinu samhliða frumvarpi að lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga. Við gerð frumvarpsins var haft náið samráð við Sjúkratryggingar Íslands sem annast framkvæmd slysatrygginganna. Frumvarpið felur ekki í sér eiginlega endurskoðun á efni trygginganna eða orðalagi ákvæða laganna umfram það sem brýna nauðsyn ber til, heldur aðallega tilfærslu ákvæðanna í sérlög. Eru þau þar með aðgreind frá efnisákvæðum um lífeyristryggingar almannatrygginga, enda er um eðlisólíkar tryggingar að ræða. Ekki eru því lagðar til miklar efnislegar breytingar í frumvarpi þessu frá gildandi ákvæðum um slysatryggingar í gildandi lögum. Miðað er við að bætur og bótafjárhæðir verði þær sömu og áður og skilyrði fyrir rétti til bótanna eru að mestu óbreytt. Þá eru almenn ákvæði frumvarpsins svo til samhljóða samsvarandi ákvæðum í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Virðulegi forseti. Við gerð frumvarpsins var meðal annars höfð hliðsjón af niðurstöðum úrskurðarnefndar almannatrygginga og að teknu tilliti til þeirra þótti mikilvægt að leggja til breytingar á einstökum ákvæðum laganna ásamt því að skýra einhver þeirra nánar þar sem upp hafa komið vafatilfelli við framkvæmd gildandi laga.

Líkt og í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning er í þessu frumvarpi kveðið á um markmið með slysatryggingum, gildissvið trygginganna er afmarkað og nokkur hugtök skilgreind. Lagt er til það nýmæli að slysatryggingar greiði kostnað við iðjuþjálfun og talþjálfun þeirra sem slysatryggðir eru.

Enn fremur er lagt að sjúkrahjálp, þ.e. sjúkrakostnaður, verði að jafnaði ekki greidd á grundvelli þessara trygginga vegna kostnaðar sem fellur til eftir að liðin eru fimm ár frá slysdegi en eftir það fari um rétt hins slasaða til greiðslu kostnaðar samkvæmt almennum ákvæðum laga um sjúkratryggingar.

Einnig er lagt til að heimilt verði að fella niður bótagreiðslur samkvæmt lögunum hafi hinn slasaði verið valdur að slysinu af stórkostlegu gáleysi. Er þar höfð hliðsjón af dönskum og norskum vinnuslysarétti og íslenskum vátryggingarétti.

Lagt er til að örorkulífeyrir greiðist frá 18 ára aldri og er það í samræmi við aldursviðmið annarra laga varðandi bætur almannatrygginga.

Þá má nefna að lagt er til að tilgreint sé á hvers konar örorkumati varanleg læknisfræðileg örorka er byggð í slysatryggingum almannatrygginga. Er það í fyrsta skipti sem slíkt er gert en efni ákvæðisins er í samræmi við framkvæmdina.

Hæstv. forseti. Talið er að fyrirhuguð lagasetning hafi almennt jákvæð áhrif fyrir þá sem teljast slysatryggðir á grundvelli slysatrygginga almannatrygginga enda mun skýrara að hafa sérlög um þessar tryggingar. Þótt ekki standi til að þessu sinni að endurskoða efni trygginganna frá grunni eða orðalag ákvæða umfram það sem brýna nauðsyn ber til, og ég hef gert grein fyrir, er talið að auðveldara verði er frá líður að fjalla ítarlega um slysatryggingar almannatrygginga en áður hefur verið gert.

Ég ætla ekki að hafa lengri kynningu á frumvarpinu en að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.