141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

635. mál
[19:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu sína þegar hann mælti fyrir þessu máli. Það eru örfá atriði sem mig langar að koma hér á framfæri við þessa 1. umr.

Ég vil í fyrsta lagi fagna því sem kemur fram í 1. gr. þar sem sett er fram markmiðsgrein, þ.e. reynt að útfæra markmið slysatrygginga almannatrygginga þannig að úr verði bætt. Ég held að það sé til bóta.

Mig langar hins vegar að vekja athygli á 5. gr. Í b-lið 2. mgr. er fjallað um hvenær einstaklingur teljist vera við vinnu og sé tryggður þar og á ferðalögum til og frá vinnu. Í skýringum stendur, með leyfi forseta:

„Viðbótaráskilnaðurinn um eðlilega leið er í samræmi við áralanga framkvæmd slysatrygginganna og niðurstöður úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem tryggingin hefur einungis tekið til ferða á því sem næst beinni leið milli heimilis og vinnustaðar en bótaskyldu hafnað vegna slysa þegar um er að ræða veruleg frávik frá beinni og eðlilegri leið í slíkum ferðum.“

Nú skal ég fúslega viðurkenna að ég þekki hvorki alla úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga né hvernig hefur almennt verið tekið á þessum málum. Mér finnst þetta þó nokkuð sérstakt vegna þess að ljóst er að það er verið að setja þarna inn vinnulag sem verið hefur. Það þarf ekki endilega að vera hið rétta eða sú leið sem við viljum fara. Við þekkjum það að menn fara jafnvel lengri veg í dag til og frá vinnu en áður og hafa kannski ekki alltaf um hina svokölluðu eðlilegu leið að velja þegar veður er vont, óhöpp verða eða eitthvað kemur í veg fyrir það. Því hefði verið ágætt að fá hér skýringar á því hvort þetta sé algilt eða hvort það séu þá undanþágur sem taki mið af aðstæðum hverju sinni. Hægt er að taka dæmi um einstakling sem býr fyrir austan fjall og vinnur í Reykjavík og fer venjulega Hellisheiðina en stundum Suðurstrandarveg eða Þrengslin ef slíkar aðstæður eru. Ég hefði því haldið að það væri ágætt að hafa frekari skýringu þarna.

Síðan langar mig að nefna að í 6. gr. eru lagðar til nokkrar breytingar á slysatryggingum íþróttafólks. Þar er aftur vísað í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga og lagt til að sá er stundar íþróttina, íþróttafólkið, þurfi að vera í formbundnu íþróttafélagi og að félagið sé aðili að viðurkenndu íþróttasambandi. Nú velti ég fyrir mér hvort til séu eða geti verið til íþróttafélög eða íþróttafólk sem er í félagi sem er ekki aðili að viðurkenndu íþróttasambandi en íþróttin sé viðurkennd á heimsvísu þótt hún sé ekki viðurkennd hjá félögum hér og hvar það fólk stendur ef staðan er sú. Um það er ekkert rætt hvort slík tilfelli eru til, en eitthvað segir mér að slíkt geti verið.

Síðan langar mig að nefna og koma á framfæri við þessa umræðu varðandi 9. gr. að mér finnst mikið fagnaðarefni að þar er talað um, með leyfi forseta:

„Eðlilegt er talið að slysatryggingar almannatrygginga greiði slíkan kostnað …“

Þá er verið að ræða um iðjuþjálfun og talþjálfun. Ég fagna þessu. Ég held að það sé til mikilla bóta og afar ánægjulegt að þetta sé í frumvarpinu.

Ég nefndi áðan í andsvörum við hv. þm. Pétur H. Blöndal þetta með fimm árin og ætla ekki nánar út í það.

Mig langar að nefna mál sem verið er að vinna að, að ég veit, í annarri nefnd, framhaldsnefnd eða hvað á að kalla hana, og varðar þá fjármuni sem veittir eru vegna bifreiðakaupa. Ég lagði hér fram frumvarp að minnsta kosti tvisvar ef ekki þrisvar þar sem mig minnir að hafi verið vísað í þá vinnu sem er í gangi varðandi styrki til bifreiðakaupa vegna örorku og þess háttar. Ég vona svo sannarlega að það dragist ekki úr hófi að skila niðurstöðum því að veruleg þörf er á að bæta réttindi og jafnræði þegar kemur að því.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég hef komið hér að nokkrum athugasemdum. Ég held að það sé full ástæða til að nefndin fari vel yfir málið þegar það kemur til hennar og hún nær að funda um það.