141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:25]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér barst bréf frá bæjarstjóra Reykjanesbæjar sem ég brást strax við og upplýsti hann um að við mundum taka saman ýmis gögn í málinu af því tilefni sem og var gert. Síðan var það mál rætt í ríkisstjórn og fjármálaráðherra tók að sér, eðli málsins samkvæmt eins og það mál var vaxið, að fara í viðræður við bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ um erindi þeirra. Ég veit ekki betur en að fyrsti fundur þeirra hafi þegar farið fram. Ef til fellur þörf fyrir fjárfestingu í innviðum sem heita mega á einhvern hátt sambærileg, tengt einhverjum raunverulegum fjárfestingaráformum sem fara þá af stað, verður það að sjálfsögðu skoðað og rætt. Það er bæði rétt og skylt.

Auðvitað eru aðstæður mismunandi og er rétt að leggja áherslu á að í þessu tilviki er auðvitað um nýtt iðnaðarsvæði að ræða sem verið er (Forseti hringir.) að leggja í stofnkostnað til að gera að möguleika. Að því leyti er það ósambærilegt við aðstæður á svæðum eins og Grundartanga í dag þar sem öll (Forseti hringir.) slík fjárfesting hefur þegar farið fram.