141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:30]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé ekki stórfellt áhyggjuefni vegna þess að málið hefur verið undirbúið með viðkomandi stofnunum, Siglingastofnun og Vegagerð, og fulltrúar innanríkisráðuneytisins hafa að sjálfsögðu fylgst með því. Hér er verið að afla á einum stað í einum heimildarlögum heimildar fyrir þessum framkvæmdum í heild sinni. Að sjálfsögðu hefði ekki verið til hægðarauka að dreifa því í mörg frumvörp sem hefðu verið flutt af mörgum ráðherrum. Ég tel þetta hina eðlilegu nálgun enda er þetta allt samhangandi. Það reynir ekki á heimildirnar nema allur pakkinn gangi upp, að viðkomandi samningar falli á sinn stað, fyrirvörum aflétt o.s.frv. Ég held að það sé alveg augljóst að það sé hægt að afla heimildanna í sjálfstæðum lögum af þessu tagi og þær eru jafngildar, óháð því hvaða ráðherra flytur málið. Það er ákvörðun Alþingis í þeim efnum sem gildir.

Ef heimildin er samþykkt er hún heimiluð og þá hefur ríkið heimild til þess að reiða greiðslurnar af hendi til að standa straum af þessum fjárfestingum í þessum innviðum. (Forseti hringir.) Ég tel ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum athugasemdum, eða þessum vangaveltum ef ég má leyfa mér að kalla það svo, (Forseti hringir.) frá mínum góðu vinum í fjármálaráðuneytinu.