141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:41]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Annars vegar er nauðsynlegt að minna á að fyrir þinginu liggur breyting á þessum nefndu ívilnanalögum. Meginbreytingin er sú að tekin er út heimildin til að greiða beina stofnstyrki, svonefnda „cash grand“ styrki. Í staðinn eru rammarnir til að veita ívilnanir á upphafstímanum færðir nokkuð út. Verði það frumvarp samþykkt, sem ég geri frekar ráð fyrir, er frávikið í þessu frumvarpi aðeins í tveimur tilvikum út fyrir ramma þeirra laga, það er 15% tekjuskattsþakið og full niðurfelling á hinum almenna þætti tryggingagjaldsins. Að öllu öðru leyti dugar ramminn sem fyrir liggur í því frumvarpi sem hér bíður 3. umr.

Ástæðurnar fyrir því að hér er í tveimur tilvikum gengið nokkru lengra eru einfaldar og hafa lengi legið fyrir. Hér er um svokallað kalt svæði að ræða. Það má flokka þetta undir „green field“ stuðning við uppbyggingu á svæði sem liggur langt frá suðvesturhorninu og í öðru lagi er hér verið að ryðja nýja braut. Það er verið að opna upp nýjan staðsetningarvalkost fyrir iðnaðaruppbyggingu í landinu. (Forseti hringir.) Það kallar á meiri stuðning til fyrsta fyrirtækisins og gefur ekki fordæmi gagnvart öðrum svæðum eða öðrum fyrirtækjum sem á eftir koma og njóta góðs af því sem þá hefur (Forseti hringir.) verið gert í formi innviðafjárfestinga og ívilnana.