141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það var mikið, af einhverju tilefni hefði líka verið hægt að segja loksins, loksins þokast mál aðeins lengra á veg við Bakka á Húsavík en áður hefur verið. Ég fagna því mjög að svo er komið að íslensk stjórnvöld eru farin að leggja fram tillögur í frumvarpsformi sem miða að því að sú uppbygging sem unnið hefur verið að um alllanga tíð geti hafist á þessu svæði þannig að menn hætti að bakka með Bakka.

Þetta mál á sér langa sögu. Það má rekja það allt aftur fyrir 1980 þegar menn fóru að huga að iðnaðaruppbyggingu í Þingeyjarsýslum þar sem menn voru með þær hugmyndir um nýtingu jarðvarma að hægt væri að nýta hann til atvinnuuppbyggingar og voru ýmsar hugmyndir þar uppi.

Það má í rauninni segja um það mál sem við erum að ræða hér í kvöld að ákveðin kaflaskil hafi orðið árið 1998 þegar samstarf tókst með Þingeyingum og Eyfirðingum um stofnun Þeistareykja hf. sem var fyrirtæki sem ætlað var að kanna til hlítar möguleika á orkunýtingu og atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Í framhaldi af því samstarfi fóru alþjóðlegir fjárfestar að sýna svæðinu áhuga. Það leiddi til þess að árið 2002 gerði Fjárfestingarstofa, Húsavíkurbær og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga samkomulag um frummat á staðsetningu orkufreks iðnaðar við Húsavík. Það komu raunar fleiri að þessu verki en niðurstaðan varð sú að þetta frummat var unnið og á grunni þeirra niðurstaðna sem út úr því komu gengu Húsavíkurbær og Alcoa frá sameiginlegri viljayfirlýsingu um uppbyggingu álvers á Bakka. Þetta var árið 2006. Þegar sú yfirlýsing var gerð voru áætlanir Alcoa um umfang framleiðslunnar slíkar og af þeirri stærðargráðu að talið var að þær gætu staðið undir allri uppbyggingu nauðsynlegra innviða, svo sem nýjum hafnarmannvirkjum og vegtengingu á milli hafnar og stóriðjusvæðisins eða iðnaðarlóðarinnar við Bakka. Í framhaldi þessa verks var unnið áfram að málinu og iðnaðarráðuneytið og Alcoa gerðu og gengu frá viljayfirlýsingu um áframhaldandi hagkvæmniathugun og að því komu síðan Landsvirkjun og Landsnet sem leiddi til þess að í júní 2008 var samið um framlengingu á viljayfirlýsingu Alcoa, Landsnets, Norðurþings og ríkisstjórnar Íslands. Það var vissulega áfangi.

Á grunni þess góða samstarfs sem hafði náðst var hafist handa við mat á umhverfisáhrifum. Það hófst í júní 2008. Þá bar svo við að 31. júlí það sama ár úrskurðaði þáverandi umhverfisráðherra, sem má geta í stuttu innskoti að er aðstoðarmaður núverandi formanns Samfylkingarinnar, að þessar framkvæmdir á Bakka skyldu fara í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum. Um þetta stóðu miklar deilur og standa raunar enn, en úrskurðurinn leiddi til þess að andstaða tiltekins stjórnmálaafls við þetta verkefni varð til þess að verkefnið gekk ekki eftir þó svo að Alcoa, Landsvirkjun og Landsnet hafi haldið fund 10. febrúar 2009 í samráði við fulltrúa Landverndar á Húsavík þar sem kynnt voru ákveðin stig í verkferlum við það að hefja svokallað sjálfbærniverkefni fyrir þetta verk í Þingeyjarsýslum með sama hætti og Alcoa hafði gert og unnið á Austurlandi í tengslum við Reyðarál.

Það næsta sem gerist síðan er að í október 2009 rann út viljayfirlýsing ríkisstjórnar Íslands og Norðurþings og þáverandi ríkisstjórn hafnaði beiðni Alcoa um framlengingu. Þetta er forsaga þess máls sem við erum að ræða hér í kvöld þar sem þessi niðurstaða varð, þ.e. þáverandi og núverandi stjórnvöld vildu ekki ganga til þess verks með Alcoa að byggja álverksmiðju við Bakka á Húsavík eins og í rauninni hafði verið heimilað á grunni umhverfismats sem unnið var. Upp kom sú staða að menn vildu leita annarra leiða og ríkisstjórn Íslands tók þá ákvörðun að beina sjónum sínum í samstarfi við Þingeyinga í aðrar áttir. Strax við þá ákvörðun varð ljóst að umfang fjárfestingarinnar yrði minna en gert var ráð fyrir við byggingu álvers Alcoa. Þá varð sömuleiðis ljóst að tekjur af iðnaðaruppbyggingu á Bakka mundu skila sér til muna hægar og tæpast standa undir þeim kostnaði sem leiddi af nauðsynlegri uppbyggingu innviða við höfn og vegagerð. Á grunni þeirrar niðurstöðu sem þarna hafði fengist hófst vinna við uppbyggingu á Bakka í samstarfi Norðurþings, sveitarfélaga á Norðurlandi og ríkisstjórnar Íslands. Strax frá upphafi var ljóst að nauðsynlegt var, ef af þessu átti að verða, að íslensk stjórnvöld kæmu að þessu verki því að svokallaðir innviðir, höfn og vegagerð, yrðu að koma til óháð stærð eða fjölda þeirra fyrirtækja sem hugsanlega kynnu að koma sér fyrir á þeirri lóð sem um er rætt.

Það er á allan hátt ljóst að það verkefni sem hér er verið að setja af stað mun hafa gríðarleg áhrif á það samfélag sem í Þingeyjarsýslum er og nærsveitir þeirra. Mat Byggðastofnunar á verkefninu ásamt mati heimamanna leiðir til þess að einboðið er að álykta með þeim hætti að vörn og skjöldur verði settur fyrir þann fólksflótta sem úr Þingeyjarsýslum hefur verið á undanförnum árum. Fram kemur í greinargerðinni með frumvarpinu að innviðir samfélagsins á Húsavík eru ágætlega undir það búnir að taka við íbúafjölgun. Nægt framboð er af byggingarlóðum á Húsavík og skipulögð íbúðarsvæði en jafnframt er ljóst, eins og upplýsingar liggja fyrir um, að sveitarsjóður Norðurþings er ekki ýkja burðugur til stórra verka og má það öllum ljóst vera að sú uppbygging sem af þessu verki leiðir mun skjóta styrkari stoðum undir hinn sameiginlega sjóð íbúa Norðurþings. Það er mat Byggðastofnunar eins og hér kom fram í máli hæstv. ráðherra að að óbreyttu mundi íbúum í Þingeyjarsýslum fækka um 330 manns á næstu tíu árum, en verði af þeirri iðnaðaruppbyggingu sem menn gera sér vonir um má gera ráð fyrir fólksfjölgun þar á bilinu 750–1.200 manns. Það hangir að vísu saman við hversu mikil uppbyggingin verður.

Þessu verki er ekki lokið. Það kemur líka fram að ýmsir samningar varðandi þetta eru ekki komnir í höfn. Á það er meðal annars bent í athugasemdum með frumvarpinu að í 7. gr. frumvarpsins liggi fyrir að gera þurfi samninga um þetta verkefni sem bera þarf undir Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Hún þarf að veita samþykki sitt fyrir ívilnunarsamningi og þar til afstaða ESA liggur fyrir hvílir kvöð um biðstöðu á framkvæmdinni, sem þýðir að óheimilt er að hrinda henni í framkvæmd fyrr en að fengnu slíku samþykki. Eins og segir í greinargerðinni má gera ráð fyrir því að það geti tekið allt að sex mánuðum og á meðan verður væntanlega unnið að öðrum samningum sem tengjast þessu verki. Af því leiðir að þær fjárhagsskuldbindingar sem hér er rætt um og eru vissulega miklar koma ekki af neinum þunga fyrr en á árinu 2014 þannig að gera má ráð fyrir því að inn í fjárlög þess árs muni koma til kostnaður af þeim áformum sem nú eru uppi.

Að því leytinu til mætti hafa þau orð um þetta frumvarp — ekki síst í ljósi þeirra athugasemda sem ég og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson settum fram í fjárlagavinnunni sl. haust um að við gerðum kröfu til þess að kostnaður yrði áætlaður og heimildir settar í fjárlög — að kalla það því sama og ég kallaði frumvarp hæstv. velferðarráðherra í dag um almannatryggingar, óskalög, þ.e. ósk um að Alþingi setji lög á grunni þess að vilji manna standi til þess að fara til verka án þess að fyrir liggi fjármögnun. Hér er ekki um slíkt að ræða vegna þess að við höfum svigrúm þegar fram í sækir, í fjárlagagerð 2014, að koma þeim fjárveitingum inn.

Með sama hætti má nefna að gert er ráð fyrir því í þjóðhagsspá Hagstofunnar að þetta verkefni fari að stöfnum þó svo við sjáum fram á að því seinki örlítið frá þeim áætlunum sem voru uppi.

Ég vil þó segja það, ekki síst í ljósi þeirra orða sem hv. þm. Mörður Árnason hafði uppi hér áðan þegar hann var í andsvari við hæstv. ráðherra og spurði hvers vegna þyrfti að koma til móts við þetta fyrirtæki með þessum hætti, að í mínum huga er nokkuð ljóst hvers vegna svo er komið. Það liggur fyrir að gríðarlegur samdráttur hefur verið í atvinnuvegafjárfestingu á Íslandi og ekki síst erlendri fjárfestingu, m.a. af þeim ástæðum að við höfum séð hér skattumhverfið breytast og að mínu mati á það stóran þátt í því, við höfum líka séð ákveðin atriði sem ég vænti að hv. þm. Mörður Árnason hafi frekar stutt en talað gegn, sem lutu að því að leggja sérstakan skatt á stóriðjufyrirtækin í landinu. Hvoru tveggja sem ég nefndi leiðir ekki til þess að við fáum mikla eftirspurn eftir erlendri stóriðju eða erlendri uppbyggingu hér á landi heldur þvert á móti hamlar gegn henni sem leiðir aftur á móti til þess að Íslendingar og íslensk stjórnvöld verða að leggja töluvert af mörkum til að fá og greiða fyrir því að erlendir aðilar komi hingað til lands og fjárfesti. Það væri æskilegra að menn beittu sér fyrir því að gangast fyrir breytingum á skattumhverfi fyrirtækja á þann veg að það yrði hagfelldara fyrir þau að fjárfesta hér á landi. Ef hv. þingmaður hefur þá afstöðu að hér sé of í lagt treysti ég því að hann beiti sér fyrir því að varpa af herðum okkar skattkerfi sem kæfir eða fælir frá okkur erlenda fjárfestingu.

Eins og ég sagði væri æskilegt að öll fyrirtæki gætu búið við það umhverfi sem hér liggur fyrir. Þetta er dýru verði keypt, það skal alveg viðurkennt, en ég held að það sé morgunljóst að það er gert í ljósi þeirrar stöðu sem við erum að glíma við, ekki síst þar sem löng saga liggur að baki verkefninu. Miklar væntingar hafa verið skapaðar til þessa verkefnis í Þingeyjarsýslum. Ég minni á yfirlýsingu hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, sem hvatti til þess á árinu 2010 að Þingeyingar færu að búa sig undir gríðarlega atvinnuuppbyggingu. Nú sér maður hilla undir það sem betur fer og ég hvet alla alþingismenn til að standa saman um það að koma þessum verkum til framkvæmda. Ég er ekki í vafa um að þau munu leiða til þess að við sjáum fleiri slík verkefni sækja til landsins, ekki er vanþörf á. Í mínum huga er það fagnaðarefni að þessi frumvörp eru komin fram. Ég hvet menn til að standa vörð um þau og koma þeim til framkvæmda.