141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[21:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tvö frumvörp hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra varðandi annars vegar heimild ráðherra til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi og hins vegar frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi.

Mig langar aðeins í ljósi þeirrar umræðu sem hófst með andsvari hv. þm. Marðar Árnasonar varðandi ívilnunarfrumvarpið, fjárfestingarsamninginn, en ég átti orðastað við hæstv. ráðherra um það í fyrirspurnatíma um daginn, að benda á að vakin er athygli á því á bls. 16 í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að, með leyfi forseta:

„Varðandi þær viðbótarskattaívilnanir sem lagðar eru til í þessu frumvarpi, umfram þær sem er að finna í almennu ívilnunarlögunum, þá vekja þær upp spurningar um hvort með þeim verði skapað fordæmi fyrir þá umsóknaraðila sem á eftir kunna að koma með samskonar fjárfestingarverkefni og kynnu að vera mun stærri í sniðum. Með þessum ívilnunum virðist sem verið væri að hverfa frá þeirri stefnu sem mörkuð var með lögum nr. 99/2010.“

Þetta er það sem hv. þm. Mörður Árnason var að benda á áðan. Ég vil því rifja upp frumvarpið sem varð að lögum nr. 99/2010 og ræðu hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra. Það má ekki gleyma því að mörg stór orð voru höfð uppi um að ná ætti fjárfestingu til Íslands með því að gera þennan ívilnunarpakka gagnsæjan og verið væri að gera það sambærilegt því sem er annars staðar. Katrín Júlíusdóttir, hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, segir í framsöguræðu sinni, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er verið að leggja til að horfið verði frá því fyrirkomulagi sem hefur tíðkast hér á landi að gera sértæka fjárfestingarsamninga vegna einstakra verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi, eins og við þekkjum orðið nokkuð vel, og síðan samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA eftir því sem þörf hefur verið metin á í hvert skipti. Hefur það fyrirkomulag reynst þungt í vöfum og ómarkvisst og með því formi er ekki boðið upp á nægilegan sveigjanleika til að mæta ólíkum fjárfestingarverkefnum“

Vakin hefur verið athygli á því hér og í umsögn ráðuneytisins að verið sé að hverfa frá þessu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra eina ferðina enn af hverju svo er. Ég kaupi ekki alveg þær skýringar sem hann nefndi áðan vegna þess að mér finnst klárlega verið að hverfa til baka til þess tíma sem vinstri stjórn Steingríms J. Sigfússonar og félagar lögðu upp með og voru með mikinn lúðrablástur út af.

Í frumvörpunum er verið að skuldbinda ríkissjóð til að taka þátt í verkefninu með talsverðum fjármunum. Verið er að leggja samtals 5,4 milljarða í fjárfestinguna, hafnargerð, vegagerð og ívilnanir vegna skattamála og því ekki nema eðlilegt að upp komi samanburður við önnur verkefni. Hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan að ef upp kæmu sambærilegar aðstæður vegna áforma sem væru að verða að veruleika væri sjálfsagt að skoða það. Þegar um ræðir samanburðinn við álverið í Helguvík finnst mér ótrúlegt að heyra slík svör og ég fellst ekki á þau. Hæstv. ráðherra er fullkunnugt um að í Helguvík stendur hálfgert álver sem um 10 milljarðar hafa verið lagðir í og hefur allt þetta kjörtímabil verið rekið á eftir og rætt um og menn geta haft skiptar skoðanir á því af hverju það er ekki í fullum gangi akkúrat núna. Hæstv. ráðherra hlýtur að viðurkenna að það er verkefni sem er komið af stað og hlýtur að vera að fullu sambærilegt miðað við orð ráðherrans áðan. Hafnargerðin getur sérstaklega ekki komið hæstv. ráðherra á óvart vegna þess að lagt hefur verið fram frumvarp í þrí- eða fjórgang til að tryggja ríkisframlög vegna hafnargerðar í Helguvík og hefur frumvarpið ekki náð fram að ganga. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa og viðræður eru, eins og kom fram áðan, hafnar við Reykjanesbæ og merkilegt nokk hófust þær í morgun, sama dag og þetta frumvarp er tekið til 1. umr. Þá hlýtur maður að fara eitt ár til baka en í grein Oddnýjar G. Harðardóttur í blaðinu Reykjanes, sem ég vitnaði til áðan, upplýsir hún að þann 9. mars 2012 hafi verið samþykkt tillaga í ríkisstjórn um að komið yrði á samstarfshópi ráðuneyta sem fjallaði um höfnina í Helguvík og legði mat á aðstæður og kostnað.

Ári síðar er lagt til að viðræður hefjist við Reykjanesbæ en eftir því sem mér skilst var það sami hópurinn og hefur farið í gegnum áformin á Bakka þar sem við erum komin með fullbúið frumvarp sem áform eru um að klára fyrir þinglok. Maður veltir fyrir sér þeim tímasetningum og líka því að við fáum frumvarpið til umræðu sjö dögum fyrir þinglok, sjö dögum fyrir seinasta þingið á kjörtímabilinu. Hvað tefur sams konar meðferð á Helguvík? Ég bið um önnur svör en þau að þegar eitthvað sambærilegt fer í gang sé sjálfsagt að skoða það vegna þess að verkefnin eru farin í gang. Lóðirnar hafa verið fjármagnaðar, annars vegar af fyrirtækjunum og hins vegar af sveitarfélaginu. Vegirnir hafa verið lagðir með aðkomu sveitarfélaganna og höfnin var fjármögnuð af sveitarfélaginu án þátttöku ríkisins. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að farið verði í sambærilega uppbyggingu í Helguvík og að frumvarp komi fram fyrir þinglok. Ég óska alla vega eftir því að fá svör við því.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af orðum hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um fjárhagslegu skuldbindinguna. Það segir í kostnaðarmatinu að engin áform séu uppi í frumvörpunum um hvernig eigi að fjármagna útgjöldin, ekki sé gert ráð fyrir því í langtímaáætlunum og að ef það verði að veruleika sé sjálfsagt að finna aðra staði til að draga úr framkvæmdum eða koma með auknar tekjur í ríkissjóð með öðrum hætti. Hvaða áform hefur hæstv. ráðherra um það?

Það gleðilega er, svo ég endi á jákvæðum nótum, að hæstv. ríkisstjórn virðist átta sig á því rétt á lokasprettinum að leiðin til að efla atvinnu og stuðla að uppbyggingu og fjárfestingu er ekki sú leið sem þeir hafa farið í þrjú og hálft ár, að hækka skatta og herða öll skilyrði fyrir slíkum framkvæmdum heldur einmitt að lækka skatta og koma á samvinnu við fyrirtæki sem hafa hug á að koma hingað. Það er líka skemmtilegt að það skuli vera í orkufrekum iðnaði sem mengar reyndar meira en áliðnaðurinn sem hefur mikið verið til umræðu hér. Það er merkilegt að hæstv. ríkisstjórn skuli sjá ljósið korteri fyrir kosningar og það er merkilegt að ríkisstjórnin skuli sjá ljósið á Bakka þegar ljósin hafa verið slökkt hvað varðar verkefni mikið nær okkur. Ég vona svo sannarlega að það sé vísbending um að við taki betri tímar. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvort ekki sé örugglega von á sambærilegum frumvörpum varðandi uppbyggingu í Helguvík vegna þess að málin eru svo sannarlega sambærileg og verkefnin eru svo sannarlega farin af stað og verða að veruleika.