141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[21:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi míns máls gleðjast yfir því að það skuli loksins vera komið fram sem lengi hefur verið beðið eftir, frumvörp um ívilnanir til handa uppbyggingu á orkufrekum iðnaði á Bakka við Húsavík. Ég vil óska Þingeyingum, norðausturhorninu og Íslendingum öllum til hamingju með það. Þar sem ég sit í atvinnuveganefnd get ég sagt að þrátt fyrir að málið komi seint fram mun ég gera mitt til að koma því í gegn í nefndinni og í gegnum þingið og er ákaflega glaður yfir því að það sé komið fram.

Það hefur auðvitað verið fjallað talsvert um slíka ívilnunarstyrki. Í atvinnuveganefnd hefur verið fjallað um mál 502, ívilnanir vegna nýfjárfestinga, þar sem einmitt er hugað að því að auka styrki eða fyrst og fremst skattafslætti. Það kom fram hjá fulltrúa ráðuneytisins að ívilnunin næmi kannski 2–3% af stofnframkvæmdinni á meðan heimildir innan ESA, þessa rammasamnings, gætu í sumum tilvikum orðið allt að 15%. Við göngum því sannarlega ekki mjög langt þrátt fyrir að kannski hljómi svo í eyrum einhverra. Í samkeppni við önnur lönd þurfum við án efa að gera betur í framtíðinni. Það byggir auðvitað á því að við höfum ekki nýtt stofnstyrki sem nokkru nemur, við höfum ekki efni á því og höfum þess vegna ekki gert það til þessa.

Það er að sjálfsögðu ámælisvert að málið skuli koma svona seint inn í þingið og fyrir uppbyggingu atvinnulífs á landinu hefði það þurft að koma miklu fyrr. Nú er það komið og við skulum gleðjast yfir því og reyna að klára það sem hægt er.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara djúpt í efnisatriði frumvarpanna, við gerum það í nefndinni. Ég ætla að nefna nokkra þætti sem ég tel mikilvægt að koma inn á. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, og ekki síst í andsvörum við hann, að til að mynda hvað varðar rammasamninga eða rammalög sem voru sett fyrir tveimur árum, og menn stærðu sig gríðarlega af, væri sá tími liðinn að menn legðu fram sérstök frumvörp um ívilnanir handa einstökum fjárfestingarverkefnum. Sá tími sem menn í ríkisstjórninni gátu glaðst yfir því var ekki mjög langur þar sem slíkt frumvarp hefur komið fram. Það er auðvitað átakanlegt að horfa á hvernig ríkisstjórnin hefur komið í veg fyrir atvinnuuppbyggingu, til að mynda hvað varðar álverið í Helguvík. Það er augljós fyrirmynd, fordæmi til að ganga hratt til sambærilegra verka og koma með hliðstæð frumvörp, ekki síst varðandi innviðina og hafnarmannvirkin, um að veita Helguvíkurhöfn víkjandi lán á svipaðan hátt. Það hlýtur að verða gert og ég trúi ekki öðru þrátt fyrir að maður hafi upplifað ýmislegt hér síðastliðin fjögur ár.

Ég vil nefna að fyrir margt löngu þegar hugmyndir voru uppi um álver á Bakka átti uppbyggingin sem þar yrði að vera innviðauppbyggingin, þ.e. hafnargerðin, vegagerðin og lóðaframkvæmdirnar mjög lítill hluti af heildarfjárfestingunni eins og við þekkjum bæði á Reyðarfirði, Grundartanga og reyndar að hluta til í Helguvík. Þess vegna mundi verkefnið í raun og veru standa undir eða dekka þann kostnað sem félli til. Ég sagði strax, og margir fleiri, um leið og það gerðist að ríkisstjórnin hafnaði því í raun og veru að álver risi á Bakka — og ég vil nota tækifærið og segja að við framsóknarmenn höfum glaðst yfir því og haft þá stefnu að við eigum að hafa sem flest egg í körfunni og ekki eingöngu að byggja álver — að augljóst væri að um leið og menn færu þá leið að koma með minni verkefni mundu þau aldrei standa undir innviðauppbyggingunni og augljóst að ríkisvaldið þyrfti að koma að þeim. Það hefur til að mynda staðið orkufrekri uppbyggingu í Þorlákshöfn fyrir þrifum alla tíð. Ríkisvaldið verður að hafa einhverja stefnu í uppbyggingu hafnarmannvirkja þar sem menn vilja að orkufrekur iðnaður verði uppbyggður, sem krefst mikils landrýmis og góðra hafna. Ríkið verður að ganga á undan með einhverja áætlun og lofa fjármunum til að slík uppbygging geti orðið að veruleika. Nú er hún að verða að veruleika á Bakka og ég gleðst yfir því. Ég tel að þar sé komin fyrirmynd og fordæmi fyrir sambærilegri uppbyggingu til að mynda í Þorlákshöfn og augljóslega í Helguvík. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að ganga fljótt og vel til slíkra verka.

Ég heyrði líka að hæstv. ráðherra sagði í andsvörum sínum að á Grundartanga og að hluta til í Helguvík væri fjárfestingin tilbúin til að taka við verkefnum og þess vegna mætti halda því fram að ekki þyrfti neina ívilnun og ríkið þyrfti ekki að koma að því. Ég tel það sérkennilega túlkun á jafnræðisreglu og vil hvetja ríkisstjórnina til að endurskoða hug sinn. Þrátt fyrir að vera bæði orðinn miðaldra og talsvert þroskaður býr í mér smástrákur og ég get ekki sleppt því tækifæri sem hefur skapast og velti því fyrir mér af hverju í ósköpunum Vinstri grænir og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hafa alla tíð barist gegn álverum og orkufrekri uppbyggingu sem hefði í tilviki Bakka þýtt minni fjárútlát fyrir ríkisvaldið, minni koltvísýringsmengun fyrir andrúmsloftið og hraðari uppbyggingu atvinnu á Íslandi. (Gripið fram í: Og fleiri störf.) Og fleiri störf. Ég get ekki sleppt tækifærinu.

Ég verð að segja alveg eins og er að það er líka sérstakt að lesa umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem bent er á að innviðafrumvarpið hefði auðvitað átt að vera á hendi innanríkisráðherra og ívilnunarfrumvarpið á hendi fjármálaráðherra, að engum í ríkisstjórninni skyldi hafa verið treyst til þess öðrum en ráðherra allsherjar, sem í þessu tilviki er hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Það er svolítið sérkennilegt eða kannski spaugilegt, eða kannski ekki, að þetta skuli gerast sjö vikum fyrir kosningar. Á síðustu dögum þingsins, á síðustu dögum þessa kjörtímabils kemur hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem vel að merkja hefur verið þingmaður þessa kjördæmis um langan aldur, með þau ágætu frumvörp sem ég vil hrósa honum fyrir og munu verða til þess að atvinnuuppbygging fer af stað, sem betur fer þótt allt of seint sé en þau fara af stað. Ég tel að við hljótum að gleðjast yfir því í þinginu og gera það sem við getum til að koma þeim í gagnið.

Með þeim orðum ætla ég að ljúka máli mínu og hvetja jafnframt til þess að jafnræðis verði gætt við atvinnuuppbyggingu annars staðar á landinu.