141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[22:16]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu og málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram og vil aðeins bregðast við því sem til mín var beint í þeim efnum og koma inn á nokkur atriði.

Varðandi forsöguna sem nokkrir gerðu að umtalsefni og af hvaða ástæðum ekki varð af áformum um byggingu álvers mætti auðvitað ýmislegt um það segja og fara yfir það mál en ég held að það hafi verið orðið ljóst undir lokin að það var að fjara undan því verkefni. Meðal annars og ekki síst eftir að Landsvirkjun yfirtók virkjunarréttindi á svæðinu af Þeistareykjum ehf. gaf Landsvirkjun fljótlega út þá stefnu sína varðandi aðkomu að nýtingu háhitasvæðanna að fyrirtækið hefði þá afstöðu til þeirra hluta að vinna sig inn á þau í áföngum og mundi ekki skuldbinda sig til að lofa mjög mikilli orku á einu bretti af svæðunum. Þetta er í anda aðferðafræði sem oft hefur verið talað fyrir varðandi háhitasvæðin og við Íslendingar höfum reynslu af að hefur gefist vel, þ.e. að vinna þau undir orkuvinnslu í áföngum, taka eitt skref, öðlast meiri þekkingu á svæðinu og byggja síðan frekari fjárfestingar og uppbyggingu á þeirri vitneskju. Ég tel að þetta hafi verið og sé hárrétt aðferð og Landsvirkjun hafi í raun tekið í notkun þá aðferð sem við Íslendingar höfum þegar reynslu af að er vænleg þegar menn glíma við óvissuna sem er háð því að fara inn á ný háhitasvæði til orkuöflunar.

Í öðru lagi varðandi þann þáttinn sem snýr að Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, er það bara venjan og er alltaf gert að tilkynna um hluti af því tagi sem flokkast geta undir ríkisaðstoð. Það verður vitaskuld gert í þessu tilviki. Þá vil ég um leið minna á að við höfum ekki ástæðu til að ætla að það verði fyrirstaða við að samþykkja að þetta sé heimilt, einfaldlega vegna þess að þetta er svo langt innan rammans sem reglurnar heimila um stuðning og ívilnanir. Samkvæmt reglunum er heimilt að greiða allt að 25% af heildarstofnkostnaði verkefna af þessu tagi þegar um ný fjárfestingarverkefni er að ræða og því til viðbótar getur komið stuðningur sem tengist köldum svæðum sem þannig eru staðsett á byggðakortinu.

Þótt við tækjum þær ívilnanir sem hér hafa verið til umræðu og uppreiknuðum þær yfir allt tíu ára tímabilið sem þær geta tekið til er það langt innan þessara marka, sennilega innan við helmingur af því sem 25% stofnfjárkostnaðarframlag væri inn í þetta verkefni. Það er í öllu falli algjörlega hafið yfir vafa að stuðningurinn er langt innan þeirra marka og þess þaks sem regluverkið setur.

Varðandi það af hverju frumvarpið hafi ekki komið fyrr fram er einfalt að svara því, samkomulag lá ekki fyrir eða menn voru ekki orðnir sammála um grundvöll verkefnisins, þeir fjórir aðilar sem að því samkomulagi koma, fyrr en nú á dögunum. Það var mikilvægur áfangi, kannski ekki síður stór en sá sem hér er nú til umræðu, að stjórnvöld fái nauðsynlegar heimildir, þ.e. að það liggur fyrir samkomulag milli stjórnvalda, fyrirtækisins, sveitarfélagsins og hafnarsamlagsins þar sem aðilar fallast á að fullnægjandi grundvöllur til fjárfestingarinnar sé til staðar og að ekki verði farið fram á frekari ívilnanir eða stuðning.

Það samkomulag er undirritað á löggiltan skjalapappír og þar með fellst fyrirtækið fyrir sitt leyti sem fjárfestir á að forsendurnar séu uppfylltar af hálfu stjórnvalda, sveitarfélagsins og hafnarsjóðs. Þetta samkomulag lá ekki fyrir fyrr en á dögunum og þar af leiðandi var ekki hægt að koma fyrr fram með málið. Ýmislegt hefur auðvitað haft áhrif á það hvernig þetta hefur gengið til og því er ekkert að leyna að það hefur þyngt fyrir fæti með fjárfestingarverkefni af þessu tagi vegna efnahagsástandsins í Evrópu og eftirspurnar eftir þessum vörum. Ég er vonandi ekki að brjóta neinn trúnað þó að ég upplýsi það til dæmis, enda eru það opinberar upplýsingar á heimsmarkaði, að verð afurðanna hefur lækkað um á að giska 100 dollara á tonnið frá því að menn lögðu af stað í fyrstu hagkvæmnisathuganir á þessari fjárfestingu. Auðvitað hefur það ekki létt róðurinn fyrir fyrirtækið sem er að selja bönkum fjármögnun verkefnisins og svo framvegis. Það hefur í og með haft þau áhrif að menn hafa þurft að teygja sig heldur lengra en hitt til að ná pakkanum saman.

Nokkrir aðilar hafa minnt á rammalögin og spurt af hverju frávik frá þeim sé nauðsynlegt í þessum efnum. Ja, það er af þeim ástæðum sem ég var meðal annars að tala um áðan en fyrst og fremst er það þó það að hér er um að ræða það sem oft er kallað kalt svæði, þar sem þarf oft meira til að ná hlutunum saman en endranær. Í sjálfu sér er það þannig að ef allir erlendir fjárfestar mættu ráða hvar þeir staðsettu sig á landinu og þeim yrði bara færð orkan hvaðanæva að sem væri, með tilheyrandi flutningsmannvirkjum og töpum í flutningskerfinu, mundu þeir vilja vera í hálftímafjarlægð frá Keflavíkurflugvelli. (Gripið fram í: Í Keflavík.) Eða bara í jaðri höfuðborgarinnar. Væntanlega mundu menn vilja það af því að það væri þægilegast fyrir þá. Erlendir aðilar koma um millilandaflugvöll og þá væri gott að það væri stutt að skreppa í verksmiðjuna. Þar með værum við að taka ákvörðun um að öll slík uppbygging í landinu þjappaðist saman á einn stað. Það hefur hins vegar gríðarlega ókosti í för með sér af öðrum ástæðum, af umhverfisástæðum, vegna flutnings mannvirkjanna sem þá þurfa að koma til og vegna tapanna í orkukerfinu. Það hefði líka enn þá frekari byggðaáhrif í öfuga átt við það sem við vonandi erum sammála um að við viljum sjá, að allt landið eigi sér þróunarmöguleika í þessum efnum.

Ramminn dugar hins vegar með tveimur frávikum og þess vegna vil ég meina að það sé ekki á nokkurn hátt í þessu fólgið fráhvarf frá því að almennt viljum við byggja á rammalöggjöf um ívilnanir og stuðning við nýfjárfestingar af þessu tagi.

Þá er rétt að leggja áherslu á eitt sem kannski hefur gætt viss misskilnings um hér í umræðunni, að þetta eru heimildarlög og þetta er rammi. Hvert eitt einstakt verkefni er metið. Það er lagt mat á það hvaða forsendur séu uppfylltar til þess að veita ívilnanir og þær eru mismiklar í hverju tilviki. Þeir fjárfestingarsamningar sem liggja fyrir endurspegla þetta. Þeir hafa verið misríkulegir og þeir verða það áfram, einfaldlega vegna þess að það er lagt mat á þörfina í hverju tilviki og hvað stjórnvöld telja efnislegar forsendur til að bjóða í formi ívilnana. Þetta eru heimildarlög, það er í höndum stjórnvalda að skilgreina og meta og ákveða hvað í boði er þannig að það er, held ég, algjör misskilningur að kröfuréttur annarra geti skapast þó að stjórnvöld þurfi að ryðja brautina með fyrsta verkefninu við tilteknar aðstæður eins og hér, þar sem verið er að opna upp nýtt iðnaðarsvæði langt frá suðvesturhorninu, á köldu svæði. Það getur ekki skapað fordæmi fyrir aðra. Það er ekki okkar mat að svo sé og þetta er alveg viðurkennt í þessum fræðum. Allir sem þekkja þessa aðferðafræði og hafa unnið við hana eru því kunnugir að svona er þetta. Það er lagt mat á það hvað þarf til, hver markmið stjórnvalda eru, hvort það sé eftirsóknarvert af sérstökum ástæðum, byggðaástæðum, umhverfisástæðum, efnahagsástæðum eða öðrum, að teygja sig lengra í þessu tilviki en öðrum. Ég er til dæmis með eitt spánnýtt dæmi um ívilnunarsamning þar sem ívilnunin var í raun bara lágmarkið sem gert er ráð fyrir í rammanum, einfaldlega vegna þess að ekki stóðu efnisleg rök til að bjóða meira. Viðkomandi aðili sem samninginn fékk var ánægður og sáttur af því að hann fékk þó tiltekna ívilnun enda uppfyllti hann lágmarksskilyrðin, má segja, til að eiga rétt á henni. Hér þarf meira til og þurfti meira til og það eru gild og góð rök fyrir því að gera það.

Varðandi áhrifin á útgjöld hjá ríkinu er auðvitað einfalt mál að ræða það mál bara eins og það er. Verði ekki af verkefninu verða útgjöld ríkisins engin, núll. Við getum alveg gefið okkur það og ef einhverjir vilja ræða málið á þeim forsendum er hægt að spyrja: Á að standa í þessu?

Ég tel það réttlætanlegt og skynsamlegt. Með því að ráðast í verkefnið skapast heilmiklar tekjur, heilmikil umsvif og umtalsverður hagvöxtur í landinu því að þótt hér sé aðeins um meðalstórt fjárfestingarverkefni að ræða er það engu að síður þannig að bein erlend fjárfesting upp á 170 milljónir evra og að viðbættum fjárfestingum í virkjunum, línuframkvæmdum og öðru slíku sem hér er haldið fyrir utan leiða til talsverðra þjóðhagslegra áhrifa sem skila umtalsverðum tekjum. Það er tiltölulega einfalt að reikna út að ríkið verður sennilega búið að fá sitt til baka að uppistöðu til vegna ívilnana tíu ár inn í framtíðina, strax í lok byggingartímans. (Gripið fram í.) Vegna tekna af vinnulaunum og öðru slíku sem þá falla til. Stundum er það þannig að það kostar svolitla peninga að búa til peninga og ég held að þetta geti verið ágætt dæmi um það.

Varðandi mengunarþáttinn sem hér hefur verið nefndur vara ég menn við að fara út í þennan einfalda samanburð á áli og hreinkísilframleiðslu. Þar held ég að ekki sé hægt að leggja tonn á móti tonni. Þetta er dálítið ólík starfsemi og önnur efnahvörf sem þarna eiga sér stað og endaafurðin er talsvert önnur. Hreinkísill sem er hráefni í sólarrafhlöður og annað því um líkt er allt önnur vara en tonn af áli. Kemur þar líka á móti að í öðru samhengi er þetta miklu ábatasamari starfsemi, þ.e. að störfin per orkueiningu, kílóvattstund eða megavattstund, eru 2,5–3 sinnum fleiri eins og við sjáum strax af því að 52 megavatta áfangi upp á 33 þús. tonna framleiðslu skapar um 130 störf. Það er fljótt reiknað að ef sambærilegur starfafjöldi væri til dæmis í meðalstóru álveri þyrftu að vinna þar um það bil 1.500 manns til að starfafjöldinn væri sambærilegur per orkueiningu. Þarna hefur þetta mikinn vinning hvað varðar til dæmis störf per orkueiningu.

Annars ætla ég ekki lengra út í það á þessu stigi mála. Þetta er meðalstór iðnaður, þetta er ný iðngrein inn í landið. Mat flestra er að kísiliðnaðurinn eigi sér bjarta framtíð og að eftirspurn eftir þessum vörum muni vaxa mjög á komandi árum, m.a. vegna þess að þær eru hráefni í ýmiss konar framleiðslu sem aukin eftirspurn er eftir. Þess vegna er það áhugavert fyrir Ísland að gerast þátttakandi í þessari uppbyggingu. Við færum út kvíarnar, fáum nýja tegund iðnaðarstarfsemi inn í landið, það eykur fjölbreytnina, hér er um meðalstóran kost að ræða sem er mjög viðráðanlegur fyrir hagkerfið, ég tala nú ekki um þegar í því er slaki eins og núna. Þetta er líka af viðráðanlegri stærð fyrir viðkomandi atvinnusvæði þannig að margt mætti um það segja.

Varðandi það sem hér hefur verið nefnt í sambandi við Reykjanes eða Helguvíkurhöfn hef ég svo sem ekki miklu við það að bæta sem ég áður sagði. Það eru komnar af stað viðræður um það mál og það var rétt sem nefnt var að þetta mál var skoðað á síðasta ári í framhaldi af því að hópur embættismanna fór yfir það samhliða undirbúningi undir þetta mál. Þau gögn hafa nú verið dregin fram, þau liggja fyrir um áfallinn kostnað þarna syðra, en þar er hins vegar veruleikinn sá að það liggur ekki fyrir og lá ekki fyrir og var ekki gerður á sínum tíma neinn samningur. Það var ekki tengt við tiltekinn fjárfestingarsamning þannig að auðvitað þarf að fara yfir stöðuna hvað það varðar. Að því leyti bar það mál öðruvísi að en hér er um að ræða, en fjármálaráðherra hefur forræði á þeim viðræðum og ég held að við verðum að láta eftir okkur að ætla að þar verði farið eðlilega yfir það mál, hvað sé rétt að gera við þær aðstæður sem þar kunna að vera eða verða uppi.

Herra forseti. Þá held ég að ég hafi náð að hlaupa yfir það helsta sem hér hefur borið á góma. Ég vil þó segja vegna þess sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði, hann talaði eins og hér væri um mikil tímamót að ræða og eitthvað alveg nýtt, að það er ekki svo. Staðreyndin er sú að á undanförnum tveimur til þremur árum hafa verið gerðir allmargir ívilnunarsamningar, að mestu leyti núna frá 2010 á grundvelli laganna. Ég hef komið að nokkrum þeirra. Við gerðum til dæmis að verulegu leyti mjög sambærilegan ívilnunarsamning um ívilnanirnar sem slíkar til áformaðs kísilvers í Helguvík og við vorum mörg viðstödd undirritun. Við vorum bjartsýn á að það verkefni væri að fara af stað, en því miður dró erlendur samstarfsaðili sig út úr því verkefni. Þess vegna hefur ekki orðið af því enn þá nema kannski ef einhverjar vonir eru til þess að áhugi annarra sé að kvikna á því að koma inn í það á nýjan leik. Það var gerður fjárfestingarsamningur við gagnaver syðra sem margir muna eftir. Reyndar var svo langt af Alþingi gengið þar að við höfum að hluta verið rekin til baka með það mál af Eftirlitsstofnuninni ESA. Nokkrir fleiri ívilnunarsamningar fyrir lítil og meðalstór verkefni hafa litið dagsins ljós og að minnsta kosti þrjú þeirra eru þegar komin af stað, fjögur líklega ef við tökum Becromal þar með í dæmið. Ef við tökum járnendurvinnslu á Grundartanga og hátæknifiskiðjuver í Sandgerði eru þessi lög þegar að skila sér í verkefnum af því tagi eða hafa að minnsta kosti hjálpað til við að nokkur slík fjárfestingarverkefni hafa farið af stað.

Það er sem betur fer ekki rétt hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að þetta sé fyrsta málið af þessu tagi. Þau eru þegar orðin allmörg og nokkur þeirra komin í fullan gang eða eru í byggingu og því ber (Forseti hringir.) að sjálfsögðu að fagna.