141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[22:38]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvað við bætum miklu við með því að fara aftur í söguna. Ég held að öllum sé orðið ljóst að það sem hefur stöðvað áform um uppbyggingu álvers í Helguvík er sú staðreynd að viðræðuaðilar hafa ekki orðið ásáttir um raforkuverð og þannig hefur málið staðið núna þó að öll tilskilin leyfi hafi verið til staðar í ein tvö ár. Það þýðir ekki lengur að kenna einhverju öðru um en því sem þar er raunverulega á ferðinni.

Ég legg svo áherslu á það að lokum, sem ég minnti á áðan, að þegar kemur að ívilnuninni og þátttöku ríkisins í gegnum slíkt þá er hvert svæði og hvert verkefni metið fyrir sig. Þetta eru heimildarlög og rammalög og það ber að forðast alhæfingar út frá því. Þannig að það þarf að skoða hvert einstakt svæði, hvert einstakt verkefni og leggja mat á það og komast svo að niðurstöðu um til hvers efnisleg rök standi að stjórnvöld geri eða leggi af mörkum í hverju tilviki.