141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

afgreiðsla stjórnarskrármálsins.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ýmislegt hefur orðið til þess á þessu kjörtímabili að tefja framgang stjórnarskrármálsins. Við lögðum áherslu á að þjóðaratkvæðagreiðslan gæti farið fram miklu fyrr en hún gerði, t.d. í tengslum við kjör forseta. Stjórnarandstaðan vildi ekki fara þá leið þannig að stjórnarandstaðan hefur lagt sitt af mörkum til að tefja þetta mál eins og ég hef sagt, ekki bara með málþófi heldur líka að því er varðar efnisatriði málsins og þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Formaður flokksins hefur sagt skýrt og skorinort að hann telji mikilvægt að auðlindaákvæðið nái fram að ganga á þessu kjörtímabili. Þetta er mál sem við höfum verið með á borðinu í mörg ár. Árið 2009 var ítarlega farið fram með það að ná fram auðlindaákvæðinu, og það var stutt af framsóknarmönnum, og við leggjum áherslu á að ná að minnsta kosti því fram. Það skiptir verulegu máli og ég er sannfærð um að það er meirihlutavilji fyrir því að ná því máli fram áður en við ljúkum þingi. Á það mun alveg örugglega reyna.