141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

uppgjör þrotabúa gömlu bankanna.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Ég hélt að það hefði verið fullskýrt að viðræður eru í gangi milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli undir forustu fjármálaráðherra sem hefur staðið mjög vel að því. (Gripið fram í.) Það er unnið að ýmsum sviðsmyndum í þessu máli um hvaða afleiðingar hitt og þetta hefur. Við munum fara mjög varlega í öll þessi mál og ég á ekki von á því að þau séu komin það langt að það verði gengið frá nauðasamningum fyrir kosningar.

Ég held að það liggi ekkert endilega á í því efni og ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það er nauðsynlegt að hafa fullt samráð við stjórnarandstöðuna um framgang þessara mála. Mér þykir líklegt að ný ríkisstjórn og nýr meiri hluti gangi frá þeim og vonandi hefur hann þá sama háttinn á og þessi ríkisstjórn og hefur samráð við stjórnarandstöðuna þannig að allir hinir pólitísku flokkar komi að lausn þessara mála.