141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

frumvarp um staðgöngumæðrun.

[10:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Rúmt ár er nú liðið síðan Alþingi ályktaði að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem mundi undirbúa frumvarp til laga sem heimilaði staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það var 18. janúar í fyrra. Þann 11. september sendi velferðarráðherra frá sér tilkynningu um að starfshópurinn hefði loks verið skipaður en tók jafnframt fram að unnið hefði verið að verkefninu í velferðarráðuneytinu undanfarna mánuði.

Í þingmálaskrá núverandi hæstv. ríkisstjórnar er boðað að frumvarp til laga um staðgöngumæðrun líti dagsins ljós á haustþingi. Nú er vika til þingloka og ég vil spyrja hæstv. velferðarráðherra hvernig þeirri vinnu miði, hvort ekki sé að vænta frumvarps sem við getum þá alla vega fengið til kynningar á þessu þingi til að hægt verði að senda það til umsagnar og tryggja að þetta mál verði klárað eins og Alþingi ályktaði með miklum meiri hluta.