141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

Evrópustofa.

[10:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mikil umræða hefur verið undanfarnar vikur um stöðu Evrópustofu, hvort hún eigi að vera eða fara, þ.e. hvort það eigi að loka henni hér á landi. Þegar ég spurði utanríkisráðherra á sínum tíma um tilvist Evrópustofu upplýsti hann mig og þingið um það að ákvörðun um Evrópustofu hefði verið tekin í Brussel og Evrópusambandið sjálft hefði boðið út kynningarverkefni í eigin þágu hér á landi.

Þann 28. febrúar gerast hins vegar þau tíðindi að utanríkisráðuneytið tilkynnir fréttastofu Ríkisútvarpsins að Evrópustofa muni starfa innan ramma Vínarsamningsins um stjórnmálasamband ríkja og lúta þar af leiðandi lögmálum sendiráða.

Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvað er rétt í þessu máli?