141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

launamál slitastjórna.

[10:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nei, sannarlega er það ekki stefna Samfylkingarinnar að ekki verði upplýst um þessi laun. Laun slitastjórna, fréttir um þau koma alltaf annað slagið fram, hafa ofboðið öllu samfélaginu, líka þeirri sem hér stendur og væntanlega hv. fyrirspyrjanda. Ég vil gjarnan gera allt sem í mínu valdi stendur til að upplýsa um þessi laun. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, við gætum í gegnum Seðlabankann fengið upplýsingar um laun slitastjórna í Landsbankanum. Ég veit ekki betur en að á sínum tíma, þegar umræða var uppi um þetta og rætt í ríkisstjórninni, hafi ég óskað eftir því að reynt yrði eins og hægt væri að fá þessar upplýsingar og Seðlabankanum skrifað þar að lútandi.

Ég veit ekki hvernig það hefur gengið fyrir sig í Seðlabankanum, ég geri ráð fyrir að hann hafi orðið við ósk ráðherra um að fá upplýsingarnar. Ég skal að þessu gefna tilefni ganga á eftir því. Ég er viss um að fjármálaráðherra Katrín Júlíusdóttir mun með glöðu geði ítreka það við Seðlabankann og kanna hvort þessi ósk ríkisstjórnarinnar um að ganga á eftir þessu máli hafi verið hunsuð.

Ég skal bara gera það þegar í dag og ganga úr skugga um hvort Seðlabankinn hafi ekkert gert í málinu. Það er auðvitað ekki hægt að búa við það ef Seðlabankinn hunsar vilja ríkisstjórnarinnar í þessu máli.