141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

lengd þingfundar.

[11:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það kann vel að vera að ýmsir hér í þessum sal þurfi að finna sér nýtt starf [Hlátur í þingsal.] innan skamms. (Utanrrh.: Sumir voru aldrei …) Það er hárrétt sem hæstv. ráðherra segir, ég var aldrei góður á sjó enda var ég sjóveikur, en ég var ágætur í frystihúsi. Eitt lærði ég þar, virðulegi forseti. Þar lá allt undir að skipuleggja starfið vel þannig að verðmæti mundu ekki skemmast. Það sem við höfum til dæmis gert hér í einu málinu er að við höfum sett lög sem síðan hafa reynst röng, gölluð. Og nú þurfum við að setjast aftur við og reyna að finna lausn á því og leiðrétta skökk lög sem við settum einhverja nóttina hér í bráðræðinu. Eigum við ekki að koma okkur saman um hvaða mál á að klára, fá endanlegan lista og vanda okkur örlítið við þingstörfin nú síðustu dagana?