141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

lengd þingfundar.

[11:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við ræðum um nauðsyn þess hvort hér eigi að vera kvöld- og næturfundur eða ekki. Ég verð að segja að á þessu kjörtímabili hef ég lært að þingstörfin eru ekki vel skipulögð og við nýtum ekki tíma okkar sem best. Hæstv. utanríkisráðherra líkir störfum okkar hér á þessum dögum við annir sauðfjárbænda og ég verð að gera athugasemdir við það. Þegar maður er í önnum vegna sauðburðar skapar maður verðmæti, hjálpar sauðkindinni okkar blessuðu að koma lífi í þennan heim sem við ætlum síðan að rækta upp og borða með bestu lyst að hausti og yfir vetrartímann. [Kliður í þingsal.] Við erum að skila árangri, við erum að skapa verðmæti.

Ég get ekki séð að við séum að gera það í dag. Þótt við sitjum hér fram á nótt og tölum um mál sem öllum er ljóst að munu ekki ná í gegn, munu ekki ná framgangi í þinginu, erum við að eyða tíma okkar til einskis, við gerum sjálfum okkur þann óleik að (Forseti hringir.) sýna það andlit okkar að við forgangsröðum ekki rétt. Af því hef ég miklar áhyggjur og ég kalla eftir nýrri sýn í stjórnmálum og tel að við unga fólkið þurfum kannski að fara að taka okkur tak í því en ekki láta gamla tímann ráða hér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)