141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[11:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem sneri annars vegar að því hvort við ættum að festa þetta í lög og síðan hinu, sem er stærra mál og mikilvægara, hvort við ættum að fara í endurskoðun á lagaumhverfinu. Ég tel það vera forgangsmál. Ég held að þegar við skoðum breytingar á vörugjöldum, svokallaðan sykurskatt, það mál sem við ræðum hér á eftir, sjáum við að við erum með fullkomlega úrelt vörugjaldakerfi. Það umhverfi er stagbætt, menn hafa reynt að ná allra handa markmiðum handahófskennt og það kemur beint niður á þjóðinni.

Ég hef lagt fram sérstakt frumvarp um viðskiptastefnu Íslands þar sem ég legg til að við skilgreinum markmið hvað þetta varðar og setjum okkur það markmið að flytja verslun hingað til landsins, því að með því umhverfi sem við erum með núna sköpum við vinnu fyrir fólk í öðrum löndum. Ég hef ekkert á móti því að verslunarfólk fái störf í Boston eða Bretlandi. Það sem ég er ósáttur við er að við séum með tolla, vörugjöld og skatta sem gera það að verkum að verslunarfólk, hvort sem er á Laugavegi, í Kringlunni eða úti um landið, hefur misst vinnuna eða fær ekki atvinnutækifæri. Það er það er það kerfi sem við erum búin að byggja upp og það er fullkomlega óþolandi. Þeir sem verst verða fyrir því eru þeir Íslendingar sem hafa minnst fjárráð. (Forseti hringir.) Það kerfi sem við erum með núna er fátækraskattur.