141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[11:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það var afstaða mín og er að þær breytingar sem gerðar voru í desember hafi engin teljandi áhrif á neysluvenjur manna eða sérstök manneldisáhrif. Þegar gjöld eru hins vegar lögð á sykraðar vörur er þetta fyrirkomulag betra en það sem verið var að hverfa frá því að það er betra innra samræmi í því að miða við sykurmagn í vörunni. Það eru líka ýmis áhöld og ekki óyggjandi vísindi sem þar er byggt á. Ég held til dæmis að ábendingar og athugasemdir um ávaxtasykur, sem fram komu í umfjöllun nefndarinnar, séu þeim sem bera lýðheilsusjónarmið fyrir brjósti auðvitað umhugsunarefni en efnahags- og viðskiptanefnd afgreiðir þetta mál fyrst og fremst með þeim hætti sem gert var í desember, sem tekjuöflunarmál og hluta af forsendum fjárlaga.