141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[12:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta er svo sannarlega áminning um stöðu fyrirtækjanna. Þetta er áminning um umhverfi þeirra og um leið áminning um að ekki hefur verið brugðist við með réttum hætti þegar kemur að efnahagslífinu, atvinnulífinu og rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Það er mjög bagalegt að eftir allan þennan tíma, fjögur ár, sé ekki bjartara yfir atvinnulífinu en raunin er. Ég tel að við höfum glatað ákveðnum tækifærum. Við sjáum að það eru mikil vandamál í helstu viðskiptalöndum okkar í Evrópu, vandamál sem ekki er séð fyrir hvort eða hvernig verði leyst.

Það er því mjög mikilvægt fyrir okkur að styrkja atvinnulífið til þess að það geti sótt á markaði sem eru fyrir þær vörur sem framleiddar eru hér o.s.frv.

Varðandi hagvöxtinn er það mikið áhyggjuefni að þær áætlanir sem lágu til grundvallar fjárlögum skuli ekki hafa staðist betur raun ber vitni, að það muni rúmu 1% varðandi fyrstu áætlun og svo tæpu 1% þegar kemur að endurskoðaðri áætlun. Við hljótum að velta fyrir okkur hvaða áhrif það hefur á ríkisfjárlög fyrir árið 2013 þegar niðurstaða ársins 2012 er svona langt frá áætlun. Það rúma prósent sem þarna um ræðir er býsna stórt og mikilvægt þannig að það hlýtur að hafa mikil áhrif á getu ríkissjóðs og á fjárlögin sem samþykkt voru. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort ekki sé full ástæða til þess að birta (Forseti hringir.) endurskoðaða áætlun strax.