141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[12:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að það er mikil hætta á að við séum komin í spíral sem við þekkjum svo ágætlega, víxlverkanir hækkana. Rótina að því er að sjálfsögðu að finna hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem stofnuðu til ófriðar innan opinbera geirans með aðgerðum sínum, það hleypti þessu öllu af stað. Þá er enginn að tala um að einhverjar stéttir séu of launaðar eða að einhverjar stéttir eigi ekki rétt á kjarabótum, heldur var sáttin rofin með aðgerðum ráðherra ríkisstjórnarinnar. Það er að sjálfsögðu grunnurinn að því að verðbólgan fer hækkandi.

Það er mjög mikilvægt að ná tökum á verðbólgunni og ég verð mjög hissa ef menn komast nú að því að undirrót verðbólgunnar í dag sé neysla heimilanna eða eitthvað slíkt. Ég held að það geti varla verið því að heimilin eru mjög skuldsett, þau hafa lítið svigrúm til að eyða, þannig að það getur ekki verið undirrót þess að verðbólgan er farin að hækka.

Ég velti líka fyrir mér hvort fjármálaumhverfið og allt sem tengist því sé farið að stýra þessum hlutum þannig að við höfum ekki stjórn á því. Þá þarf mögulega að færa eitthvað af þeim völdum sem þar eru til Seðlabankans eða einhverra slíkra til þess að hafa stjórn á hlutunum. En við framsóknarmenn höfum nefnt það í tillögum okkar að það eigi að setja þak á verðbólguna til þess að hafa tök á henni. Við viljum aftengja það að opinberir aðilar tengi hækkanir á gjöldum við vísitölu, sem leiðir svo til þess að lán heimilanna hækka og snjóboltinn fer aftur af stað. Við höfum verið mjög reiðubúin til að skoða (Forseti hringir.) allar aðgerðir sem eru til þess fallnar að ná tökum á verðbólgunni.