141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður spurði mig í fyrsta lagi hvort ég vissi til að lagt hefði verið mat á það hvaða áhrif inn í vísitöluna og þar af leiðandi á lán heimilanna óbeinu skattahækkanirnar hefðu. Þær skiptu milljörðum bara síðasta haust. Ágætt er að rifja upp að þegar lagður var fram tekjugrunnur fyrir fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011 stóð ég hér seint að kvöldi eða nóttu og var að ræða við þáverandi hæstv. fjármálaráðherra. Honum fannst ég frekar óbilgjarn í umræðunni, og vildi meina einungis væri um uppsóp í skattahækkununum að ræða, allur meginþunginn hefði verið árið 2009, fyrir utan fjárlög ársins 2010. Hverju var þá gert ráð fyrir? Það var gert ráð fyrir því að tekjuauki ríkissjóðs af tekjuhlutanum yrði 11,2 milljarðar. Tekjuskerðing heimilanna, sem blasti auðvitað við, var 8,7 milljarðar. Það versta var að lán heimilanna hækkuðu við þessar aðgerðir um 14 milljarða. Ráðstöfunartekjurnar minnkuðu um tæpa 9 milljarða, lán heimilanna hækkuðu um 14 milljarða, en tekjuaukningin fyrir ríkissjóð átti ekki að vera nema 11 milljarðar. Menn geta síðan haft efasemdir um að hún hafi nokkurn tíma skilað sér.

Þarna greindi okkur mjög á. Ég hélt því fram að aðgerðirnar mundu draga úr getu heimilanna, bæði minnka tekjurnar og eins auka klafann í sambandi við húsnæðislánin, þær mundu einnig hafa neikvæð áhrif inn í hagkerfið og niðurstaðan yrði sú að tekjur ríkissjóðs mundu minnka við þessar aðgerðir en ekki aukast.