141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[15:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er akkúrat það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins hefur bent á varðandi verðtrygginguna. Þegar ríkið hækkar skatta og gjöld er það að bæta tekjum í ríkissjóð, en hver greiðir fyrir það? Hvaða áhrif hafa slíkar hækkanir á gjöldum og sköttum? Jú, þær fara út í verðlagið sem hækkar verðtryggðar skuldir heimilanna í landinu. Þetta er hvati sem á ekki að eiga sér stað og við þurfum að vinda ofan af honum, eins og við framsóknarmenn höfum lagt til.

Hv. þingmaður hafði ekki tök á því í sínu stutta andsvari að bregðast við því sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir, sem er að stórhækka vörugjöld af stærri bílum. Ég benti á hvernig ástandið er vítt og breitt um landið, sérstaklega yfir vetrarmánuðina, þar ekur fólk einfaldlega ekkert um á Yaris. Staðreyndin er sú að með stefnu ríkisstjórnarinnar og stórhækkuðum vörugjöldum á stærri bíla, sem eru lífsnauðsynlegir í hinum dreifðu byggðum, hefur skattlagning og álögur á fólk í hinum dreifðu byggðum aukist stórlega. Samfara þessu mun verð á bílum hækka og hvaða áhrif hefur það? Jú, það hefur líka áhrif á vísitölu neysluverðs sem fer út í hinar verðtryggðu skuldir.

Við erum alltaf að bíta í skottið á okkur sjálfum og mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvað honum finnist um að menn skuli hafa svona takmarkaðan skilning á aðstæðum hinna dreifðu byggða og hafa aukið álögur á bifreiðar sem fólk þarf að nota í þeim byggðarlögum, eins og ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum. Ég greiddi atkvæði gegn því og ég tel að þar sé verið að vega að hagsmunum einstakra byggðarlaga og sjálfsögðum mannréttindum fólks við að komast á milli staða.