141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[15:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hann bendir réttilega á að munur er á stefnu flokkanna þegar kemur að skuldamálum heimilanna sem við framsóknarmenn teljum að þurfi að lagfæra enn frekar en hefur verið gert. Það hefur verið gengið mjög skammt í þeim efnum og í raun og veru hafa einu leiðréttingarnar að einhverju marki komið frá dómstólum landsins sem dæmdu stjórnvöld og gengisbundin lán ólögleg, en hvað um það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um þann hvata sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur oftsinnis bent á. Finnst honum eðlilegt að ríkisstjórn á hverjum tíma geri rétt eins og þessi ríkisstjórn undanfarin fjögur ár, hún hefur náð í auknar tekjur í ríkissjóð en hún hefur hækkað vörugjöld, tolla, virðisaukaskatt og jafnvel skattprósentur til að ná auknum peningum inn í ríkissjóð, jafnvel 10 milljörðum kr. við hver fjárlög? Þær hækkanir, m.a. á virðisaukaskatti, gjöldum og tollum, hafa hækkað verðlag í landinu sem leiðir til þess að verðtryggðar skuldir heimilanna, sem eru 1.400 milljarðar í dag, hækka margfalt á við þær tekjur. Er ekki eitthvað öfugsnúið við þann hvata, þegar ríkið nær sér í auknar tekjur, með tilliti til áhrifanna sem það hefur á verðtryggð lán heimilanna í landinu?

Þurfum við ekki að hugsa hlutina upp á nýtt, eins og Framsóknarflokkurinn hefur ályktað um? Við erum eins og hundur sem reynir endalaust að bíta í skottið á sér þegar gjöld og tollar eru hækkuð sem leiðir til enn frekari hækkunar skulda heimilanna. Er það ekki eitthvað sem við þurfum að breyta?