141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[15:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst menn stundum rugla saman verðtryggingu og verðbólgu. Verðbólga þýðir að gjaldmiðillinn minnkar, rýrnar og er minna virði en áður. Þegar verðtryggðar skuldir heimilanna hækka er það ekki vegna þess að þær séu verðmeiri heldur vegna þess að gjaldmiðillinn sem þær eru mældar í er verðminni.

Það sem bítur hjá fólki eru náttúrlega greiðslurnar á hverjum tíma. Þær hækka á verðtryggðum lánum og hækka eins og allt annað sem fjölskyldan kaupir, barnableiur, epli, mjólk eða hvað það er. Þegar öll framfærslan hækkar í verði kemur það niður á fjölskyldunni og þá ekki síður útgjöldin. Það er gert ráð fyrir því að menn eyði um 20–30% af tekjunum í húsnæði, og flestir gera það, og restin er önnur framfærsla sem hækkar ekki síður en lánin og greiðslur af lánunum eða hlutfallslega jafnmikið.

Lausnin á því held ég að sé að bjóða því fólk sem vill að taka óverðtryggð lán. Það hefur verið mjög hörð stefna hjá Íbúðalánasjóði mjög lengi að hafa öll lán verðtryggð, öll lán eins, öll lán til 25 eða 40 ára, hið svokallaða Íslandslán, og þar er ekki boðið upp á neitt annað, jafnvel ekki í dag eftir að Íbúðalánasjóður hefur heimild til þess. Ég held því að þurfi að gefa fólki heimild til að taka bæði verðtryggð og óverðtryggð lán.

Herra forseti. Verðtryggðu lánin hafa kosti. Það má færa rök fyrir því að verðtryggð lán geri tekjulágu fólki yfirleitt kleift að kaupa sér húsnæði sem það gæti ekki ella í þeirri sveiflukenndu og miklu verðbólgu sem er hér á landi. Það er hættulegt fyrir menn að taka óverðtryggð lán við þær aðstæður. Auðvitað er verðbólgan vandinn en ekki verðtryggingin.